Enn er ekki gott að segja hvaða áhrif rannsókn á mögulegum embættisbrotum Donalds Trump Bandaríkjaforseta mun hafa. Stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann segir ferlið bæði langt og langsótt og að ólíklegt sé að demókratar hafi erindi sem erfiði.
Nancy Pelosi, þingforseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur tilkynnt að hafin verði formleg rannsókn á því hvort ákæra skuli Trump til embættismissis vegna brota í starfi, en málið snýr að símtali forsetans við Volodímír Selenskí Úkraínuforseta þar sem Trump bað kollega sinn að rannsaka meinta spillingu Joe Biden, demókrata og forsetaframbjóðanda.
„Fulltrúadeildin getur samþykkt með einföldum meirihluta að hefja þessa rannsókn, en síðan fer þetta fyrir öldungadeildarþingið þar sem verða vitnaleiðslur og svo þurfa tveir þriðju öldungadeildarþingmanna að greiða með því að forsetinn hafi framið embættisbrot,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is.
„Það er mjög óvíst og eiginlega frekar ólíklegt að demókratar hafi þar erindi sem erfiði, svo maður sér ekki fyrir sér að það gangi eftir.“
Þá segir hann einnig hugsanlegt að Trump snúi málinu sér í hag og líti á það sem sýknu ef málið nær ekki fram að ganga í öldungadeildarþinginu.
Eiríkur segir rannsóknina engu að síður geta þvælst fyrir forsetanum og bendir á að samskonar rannsókn á meintum embættisbrotum Bills Clintons hafi sett skugga á nánast allt síðara kjörtímabil hans þrátt fyrir að hún hafi ekki leitt til embættismissis hans.
„Þetta hefur aldrei skilað tilætluðum árangir þeirra sem leggja stað, en þetta hefur bara gerst fjórum sinnum svo það eru í sjálfu sér engin fordæmi fyrir því hvernig þetta gengur fyrir sig.“