Þinghald hafið á ný eftir þingslit Johnson

Þinghald hófst á ný í breska þinghúsinu fyrir skemmstu.
Þinghald hófst á ný í breska þinghúsinu fyrir skemmstu. AFP

Breska þingið kom saman á ný fyrir skemmstu eftir að hæstiréttur Bretlands úrskurðaði í gær að þingslit Boris Johnson forsætisráðherra landsins hefðu verið ólögmæt. Johnson sem kominn er aftur til Bretlands, eftir að hafa setið allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í gær, mun að sögn Guardian ávarpa þingheim í dag að. Þá sagði Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, að forsætisráðherrann ætti að biðja drottningu og þjóðina afsökunar.

Hæstirétt­ur Bret­lands komst að þeirri niður­stöðu að sú ákvörðun John­son að slíta þing­inu og sleppa þing­haldi í fimm vik­ur rétt fyr­ir út­göngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu hafi verið ólög­mæt. Voru allir hæstaréttardómararnir ellefu allir samdóma í áliti sínu, en þingið hef­ur ekki starfað frá 10. sept­em­ber.

Fram kom í úr­sk­urðinum að þing eigi að starfa áfram líkt og það hafi aldrei farið í hlé og tilkynnti John Bercrow, forseti neðri deildar þingsins, að þinghald hæfjist að nýju  kl. 11.30 að breskum tíma. Sagði hann „aðkallandi“ að þing komi saman sem fyrst. Ekkert verður hins vegar af fyrirspurnartíma forsætisráðherra sem venjulega á sér stað á miðvikudögum. Bercrow segir þingmenn engu að síður fá tækifæri á að láta ríkisstjórnina svara fyrir gjörðir sínar.

John­son hefur sagst vera „verulega ósam­mála“ niður­stöðu hæsta­rétt­ar en að hann muni virða niður­stöðuna. Ráðherrann Michael Gove tók í sama streng og kvaðst ekki munu gagnrýna réttinn en að hann væri ósammála niðurstöðunni.

BBC hefur eftir Gove að breska stjórnin mun nú leggja línurnar varðandi viðhorf sitt til dómsúrskurðarins sem svo verði kynnt þinginu.

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands kemur í forsætisráðherrabústaðinn í Downing stræti …
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands kemur í forsætisráðherrabústaðinn í Downing stræti eftir New York ferðina. AFP

Á að biðja drottningu og þjóðina afsökunar

Corbyn ítrekaði í samtali við BBC að Johnson ætti að segja af sér, en kvaðst þó ekki ætla að leggja fram vantrauststillögu í þinginu fyrr en fyrir lægi að Johnson mundi fara þess á leit við Evrópusambandið að útgöngu Breta yrði frestað.

John­son hefur hins vegar ít­rekað ákall sitt eft­ir því að boðað verði til nýrra þing­kosn­inga í land­inu en til þess þarf stuðning 2/​3 neðri deild­ar breska þings­ins.  

Þá sagði Corbyn forsætisráðherra skulda Elísabetu Bretadrottningu og landsmönnum öllum afsökunarbeiðni. 

„Ég tel að hann eigi að biðja bæði hana [drottninguna] afsökunar á ráðunum sem hann gaf henni [um að boða til þinghlés],“ sagði Corbyn í viðtalinu. „Það er þó ekki síður mikilvægt að hann biðji breskan almenning afsökunar á að reyna að loka á lýðræði á mjög svo mikilvægum tímum, þegar almenningur hefur verulega miklar áhyggjur af því hvað muni gerast 31. október.“

Guardian segir skrifstofu forsætisráðherra hafa staðfest að ráðherrann hafi rætt við drottninguna eftir að úrskurður réttarins lá fyrir, en neitaði að upplýsa hvort hann hefði beðið hana afsökunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert