Fótósjoppuðu mynd af leiðtoga Græningja

Myndin til vinstri er upprunalega myndin en sú til hægri …
Myndin til vinstri er upprunalega myndin en sú til hægri er fótósjoppuð. Ljósmynd/Canada's Green Party

Græningjaflokkur Kanada hefur viðurkennt að hafa átt við mynd sem sýndi leiðtoga flokksins, Elizabeth May, með einnota plastglas í hendi. Myndinni var breytt með þeim hætti að á breyttri mynd sést May halda á fjölnota plastglasi sem ber merki Græningjaflokksins. Í því er fjölnota rör úr málmi. 

Þykir þetta kaldhæðnislegt í ljósi þess að Græningjaflokkurinn hefur heitið því að skera niður notkun einnota plasts í Kanada.

May sjálf segir að breyting myndarinnar hafi verið gerð án hennar vitundar og að hún hafi verið í áfalli þegar hún sá að myndinni hafði verið breytt.

May segir að hún hafi ekkert að fela og að vissulega hafi hún þarna notað einnota plastglas. 

„Ég reyni að forðast einnota plast í mínu daglega lífi,“ segir May í yfirlýsingu. „Ég vona að þrátt fyrir þessi misstök af hálfu starfsfólks flokksins sem meinti vel geti fólk treyst því að á upprunalegu myndinni hafi ekki verið neitt sem ég hefði kosið að fela.“

Græningjaflokkurinn vill minnka plastrusl

Græningjaflokkurinn hefur heitið því að minnka plastrusl, til dæmis með því að banna einnota plast. 

Kanadabúar ganga að kjörkössum 21. október næstkomandi. Þær kosningar eru fjórðu kosningarnar sem May tekur þátt í. 

Fleiri hneyksli hafa komið upp um stjórnmálamenn nú í aðdraganda kosninga. Grafin var upp gömul mynd af Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, þar sem hann er með svokallað „brownface“ en það þykir mjög rasískt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert