Orð Boris um Cox vekja reiði þingmanna

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sætti harðri gagnrýni hjá þingmönnum í …
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sætti harðri gagnrýni hjá þingmönnum í gær. AFP

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sætti harðri gagnrýni í breska þinginu í gær og var sakaður af þingmönnum um „hættulegt“ orðfæri í umræðunni um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Orð Johnsons um Joe Cox, þingkonu Verkamannaflokksins, sem var myrt viku fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um útgöngu Breta vöktu þá mikla reiði hjá þingmönnum.

„Besta leiðin til að heiðra minningu Jo Cox er að drífa Brexit í gegn,“ sagði Johnson og segir Guardian að það hafi mátt heyra fjölda þingmanna súpa hveljur við þessi orð hans, en Cox var myrt af hægrisinnuðum öfgamanni.

Brendan Cox, ekkill þingkonunnar, skrifaði á Twitter í gær að hann væri ósáttur við að nafn konu sinnar væri notað á þennan hátt. Besta leiðin til þess að heiðra minningu hennar væri að hver og einn styddi sinn málstað.

Að sögn þingfréttaritara BBC hafa umræður í breska þinginu sjaldan orðið jafn heitar og í gær. Þingið kom þá aftur saman eftir að hæstiréttur Bretlands úrskurðaði að 5 vikna þinghlé sem Johnson boðaði til skömmu fyrir útgöngu Breta hefði verið ólöglegt. Johnson sýndi hins vegar engin  merki iðrunar og ásakaði þess í stað þingmenn ítrekað um „spellvirki“ gegn Brexit og sakaði þá um að hafa samþykkt „afsalsfrumvarp“.

Sagði Johnson rangt hafa verið hjá þinginu að láta „kveða upp úrskurð um pólitíska spurningu“ á tímum sem þessum. Þá svaraði hann beiðni þingmanna um að gæta orða sinna með því að segja slíkt „bull“ og skoraði á stjórnarandstöðuflokkana að lýsa yfir vantrausti í garð þingsins eða styðja þingkosningar og standa þannig frammi fyrir dómi kjósenda.

Breskir fjölmiðlar hafa líka sumir verið harðir í gagnrýni sinni gegn forsætisráðherranum í dag og er forsíðufyrirsögn breska dagblaðsins Mirror til að mynda „Maður sem kann ekki að skammast sín“, á meðan Times sagði: „Suðupunkti náð í neðri deildinni“; Guardian valdi fyrirsögnina: „Þingmenn ofsareiðir Johnson sem fullyrðir að hann tali fyrir Bretland um brexit“. Daily Mail var hins vegar með fyrirsögnina „Skoðanakönnun: Leyfið okkur að kjósa núna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert