Borgarstjórn Brussel í Belgíu hefur nú lýst yfir stuðningi við nýtt app sem tengir saman ökumenn með laus sæti í bílum sínum við fólk sem er á leið í vinnu. Segir Guardian stjórnvöld nú hvetja fólk til að húkka far í vinnu í þeim tilgangi að draga úr umferðarteppu á vegum borgarinnar.
Appið mun tengja saman þá sem eru með auka sæti laus í bílnum við þá sem vantar far til að komast í vinnu og er það nú þróun hjá borgaryfirvöldum.
Umferðarteppa er óvíða í Evrópu meiri en í Brussel og er talið að ökumenn í borginni eyði um 85 klukkustundum ár hvert í að sitja fastir í umferðarteppu.
Vandinn er að hluta til kominn vegna þeirrar hefðar belgískrar vinnumenningar að fyrirtæki láta starfsfólk fá fyrirtækjabíla, Belgar eru vanir að aka til vinnu frá nærliggjandi bæjum inn í borgina og svo vegna slælegs skipulags hringveganna umhverfis Brusel.
Elke Van den Brandt, sem fer með samgöngumál í Brussel segir ekki hægt að halda svona áfram og að hún vonist til að með appinu takist að draga úr fjölda þeirra sem aka einir til vinnu.
„Nýsköpunarfyrirtæki er að vinna að þessu forriti sem er ætlað endurvekja puttaferðalög,“ sagði Van den Brandt.
Julien Uyttendaele, sem á sæti í borgarstjórn Brussels segir appinu ekki ætlað að keppa við einkafyrirtæki eða samflotsþjónustur, heldur að hvetja til jákvæðara viðhorfs til þeirrar gömlu venju að ferðast á puttanum.
„Markmiðið er ekki viðskiptahugmynd eins og að baki BlaBlaCar eða UberPOP, heldur að bjóða upp á app sem gerir ökumönnum kleift að setja sig í samband við farþega sem vilja sitja með þeim hluta ferðarinnar án þess að borga,“ sagði Uyttendaele.
Auk þess að draga úr umferðarteppunni þá segir Van den Brandt verkefninu einnig ætlað að taka á loftslagsvánni.