Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, barst í gær skipun þess efnis að færa þingnefnd gögn vegna samskipta Trump-stjórnarinnar við Úkraínu. Pompeo hefur viku til að afhenda gögnin.
Stefnan er hluti af rannsókn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á meintum brotum DonaldsTrumps Bandaríkjaforseta í embætti.
Áður hefur verið greint frá því að Hvíta húsið reyndi að koma í veg fyrir að samtal Trumps við Volodimír Zelenskí Úkraínuforseta liti dagsins ljós með því að fá það vistað með háleynilegum skjölum. Í samtali forsetanna reynir Trump að fá Zelenskí til að taka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda, til rannsóknar.
Stefnan er send Pompeo vegna þess að hann hafi hingað til hunsað beiðnir nefndanna um afhendingu gagna.
Auk Pompeos ætla nefndirnar þrjár sér að kalla fimm embættismenn til vitnis. Þeirra á meðal er Kurt Volker, erindreki Bandaríkjanna í Úkraínu, en hann sagði starfi sínu lausu í gær.