Leyna fleiri samtölum

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimir Putin forseti Rússlands.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimir Putin forseti Rússlands. AFP

Hvíta húsið hefur reynt að takmarka aðgengi að samtölum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við fleiri erlenda þjóðhöfðingja en forseta Úkraínu. Samkvæmt fréttum fjölmiðla vestanhafs fengu einungis örfáir útdrátt samtala við Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu.

Samkvæmt frétt CNN eru samtöl við áðurnefnda umdeilda þjóðhöfðingja meðal þeirra sem embættismenn í Hvíta húsinu eru sagðir hafa stungið undir stól.

Heimildir CNN herma að embættismenn sem venjulega fá að sjá útdrætti af samtölum forsetans hafi ekki fengið neinar upplýsingar eftir samtal Trumps og Mohammeds. 

Embættismenn í Hvíta húsinu hafa áður svitnað yfir því hversu vinalegur Trump er við Pútín. Þar er til að mynda vísað til þess að Trump hafi óskað Pútín til hamingju skömmu eftir kosningar í Rússlandi. Starfsfólk Hvíta hússins hafði þá skrifað minnismiða fyrir Trump en á honum var skýrt tekið fram að ekki ætti að óska Pútín til hamingju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert