Beðið eftir lifur

Melissa V. frá Hawaii endaði á vergangi þegar fósturforeldrar hennar …
Melissa V. frá Hawaii endaði á vergangi þegar fósturforeldrar hennar lentu í fangelsi. Hún komst naumlega hjá því að vera seld í vændi, bjó um tíma á upptökuheimili í Alaska og endaði á götum San Francisco þar sem hún sefur á dyraþrepum með aleiguna í íþróttatösku en finnst hún þó aldrei hafa búið við meira öryggi. Melissa er einn fjögurra heimilislausra íbúa San Francisco sem sögðu mbl.is farir sínar um helgina og voru ekki allar sléttar. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

San Francisco í Kaliforníu er í sjöunda sæti bandarískra borga þegar litið er til fjölda heimilislausra, í janúar í fyrra hafði borgin upplýsingar um 8.011 heimilislausa einstaklinga en utan við þá tölu stendur fjöldi fólks sem er hvergi skráð svo líklegt er að raunveruleg tölfræði sé mun ískyggilegri. 

Í Kaliforníuríki er talið að um 130.000 heimilislausir menn og konur sofi á götum, dyraþrepum og annars staðar þar sem þau geta höfði sínu hallað. Í öðru sæti þessa dapra lista situr New York-ríki með um 91.000 heimilislausa, að því er talið er, og er New York-borg þar af heimkynni langflestra, að svo miklu leyti sem hægt er að tala um heimkynni. Fjórir heimilislausir einstaklingar í San Francisco ræddu við mbl.is í gær, sögðu frá veikindum sínum, draumum og vonum í þeirri borg Bandaríkjanna sem veitir heimilislausum einna mesta þjónustu af því sem þekkist í landinu.

Seld í vændi þegar foreldrarnir lentu í fangelsi

„Þegar fósturforeldrar mínir lentu í fangelsi endaði ég á vergangi og var að lokum rænt og farið með mig norður á bóginn,“ segir Melissa V., 33 ára gömul kona frá Hawaii, þar sem hún situr á dyraþrepi skammt frá Union Square í San Francisco og reynir af einbeitingu að plokka glerbrot úr auganu á sér sem hún veit ekki hvernig hafnaði þar. Melissa gengur um götur borgarinnar með eina íþróttatösku sem inniheldur aleigu hennar og sefur þar sem hún fær frið. Hún er skýrmælt, ágætlega máli farin og mjög viðræðugóð.

„Mér var sagt að vel stætt fólk ætlaði að ættleiða mig en svo frétti ég að stelpan sem fór sömu leið á undan mér hefði verið seld í vændi. Ég hljóp því bara í burtu í skjóli nætur og komst í einhverja félagsþjónustu sem sendi mig til Alaska,“ rifjar Melissa upp. „Þar var ég sett á upptökuheimili þar sem enginn skipti sér af mér og allt var ömurlega kalt og dimmt. Þar dó ég bara einhvern veginn, ég hætti að vera til sem manneskja,“ segir hún frá.

Hún losnaði að lokum af heimilinu í Alaska sem hafði ekki réttarfarsleg úrræði til að halda henni nauðugri og ferðaðist sem puttaferðalangur til San Francisco. „Mér hefur eiginlega aldrei liðið betur en hér, mér finnst ég örugg í San Francisco þótt ég sofi á götunni og fólkið hérna er mjög almennilegt og gestrisið. Ég held oftast til niðri við Mission Street og af og til hef ég náð að fá vinnu dag og dag sem aðstoðarmanneskja á hárgreiðslustofum en ég er ekki með neitt eins og er, atvinnuástandið er ekki svo gott núna,“ segir Melissa.

Vegabréfi Melissu var að lokum stolið svo hún er skilríkjalaus og veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Hún á dóttur sem tekin var af henni og komið í fóstur þar sem sýnt þótti að hún gæti ekki alið önn fyrir barninu. „Mig dreymir um að læra læknisfræði, mig langar að vinna við að hjálpa fólki og láta gott af mér leiða,“ segir Melissa að lokum brosandi þrátt fyrir að vinna enn að því að ná meintu glerbroti úr auga sér.

Bíður eftir lifrarígræðslu

„Ég er héðan frá San Francisco, fæddur 1978,“ segir Andrew S., sem býr í pappakassa fyrir utan Subway-stað skammt frá Powell Street-lestarstöðinni. „Ég lenti í ógöngum, fyrst með áfengisneyslu og síðar fíkniefni,“ segir Andrew. „Svo tóku andleg veikindi við og einn daginn gafst ég bara upp, ég gat ekki meira, komst ekki fram úr rúminu á morgnana,“ segir Andrew sem starfaði sem grafískur hönnuður áður en líf hans tók stakkaskiptum.

Andrew S. starfaði sem grafískur hönnuður en heldur nú til …
Andrew S. starfaði sem grafískur hönnuður en heldur nú til í pappakassa skammt frá Powell Street-lestarstöðinni og er á löngum biðlista eftir nýrri lifur eftir að áfengi og fíkniefni tóku völdin í lífi hans og hann gafst bara hreinlega upp. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Núna drekk ég bara eins mikið áfengi og ég get, það er það sem kemur mér í gegnum daginn. Svo sit ég hér og betla og fólk gefur mér annaðhvort Subway-báta eða peninga sem ég kaupi þá áfengi fyrir,“ segir Andrew sem greindist með skorpulifur fyrir nokkrum árum og er nú á biðlista eftir nýrri lifur.

„Ég veit nú ekki hvort það gerist nokkurn tímann,“ segir hann og brosir, „maður er ekki beint í neinum forgangshópi í heilbrigðiskerfinu, búinn að ávinna sér þetta allt sjálfur.“ Hann segir þjónustu San Francisco við heimilislausa til fyrirmyndar. „Við höfum aðgang að heilsugæslustöðvum í flestum hverfum þar sem við fáum alla grunnþjónustu endurgjaldslaust, þurfum bara að hafa félagsþjónustunúmer [e. social security number]. Þetta er oft dálítil bið, maður getur þurft að sitja þarna og bíða nánast allan daginn en það er ekki eins og maður þurfi að mæta á fund eða eitthvað,“ segir Andrew og hlær meðan hann sýgur sígarettu sem lítið er eftir af annað en sían.

„Ég vonast bara eftir kraftaverki og að ég komist til heilsu aftur. Það er mikið að vona og þetta er sjálfum mér að kenna. Mig langar bara að komast aftur í vinnu og verða hluti af einhverju samfélagi. Þetta er óttalega tilbreytingarlítið líf,“ segir Andrew að skilnaði og tekur að hagræða pappakassanum sínum fyrir nóttina.

Úr Persaflóastríðinu á götuna

„Ég skráði mig í herinn árið 1978, sautján ára gamall. Ég var fjarskiptamaður þar [e. radio telecommunication operator],“ segir Keary R. sem hefur búið í San Francisco í 30 ár en er upprunalega frá Palo Alto, suður af borginni. Keary stendur við Market Street, heilsar vegfarendum og biður guð að blessa þá, biður ekki um neitt fyrir þann gjörning en gauki vegfarendur að honum einum eða tveimur dollurum neitar hann sjaldan flotinu.

Fyrrverandi hermaðurinn Keary R. sneri heim úr Persaflóastríðinu með áfallastreituröskun …
Fyrrverandi hermaðurinn Keary R. sneri heim úr Persaflóastríðinu með áfallastreituröskun og ónýtt hné og fljótlega tók að halla undan fæti. Hann stendur nú brosandi við Market Street, biður fólk að eiga góðan dag og minnir á að almættið elskar það. Keary telur San Francisco fremsta bandarískra borga í þjónustu við heimilislausa og aðra kantmenn lífsins. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég var sendur til Persaflóa 1991 og sneri þaðan heim með áfallastreituröskun,“ segir Keary frá. Eftir stríðið lá leiðin beint niður. „Ég var liðtækur skákmaður frá 14 ára aldri og ætlaði mér feril í skákinni,“ segir Keary, en sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir.

„Nú reyni ég bara að vera jákvæður, það er mér ákaflega mikilvægt að geta framfleytt mér sjálfur og vera ekki háður öðrum. Ég var þangað til nýlega á meðferðarheimili í San Jose en svo missti ég plássið þar og kom þá hingað, vissi að San Francisco stæði vel við bakið á heimilislausum. Ég er líka með ónýtt hné svo ég get ekki gengið upp stiga,“ segir Keary frá og brosir sínu breiðasta þrátt fyrir núverandi ástand.

Geta fengið rúm í athvarfi fyrir heimilislausa

„San Francisco er líklega einna fremst bandarískra borga í þjónustu við heimilislausa, við höfum aðgang að heilsugæslu hér og svo er hægt að skrá sig í húsnæðiskerfi þar sem markmiðið er að þeir sem þurfa félagslegt húsnæði fái það í síðasta lagi eftir 98 daga bið. Auðvitað er þá áskilið að fólk þarf að fylgja ákveðnum reglum og sumum tekst það ekki og þá detta þeir út af listanum og þurfa að hefja umsóknarferlið aftur en hér fá allir tækifæri, maður á von,“ segir Keary og brosir sem aldrei fyrr.

„Þú getur líka fengið rúm í athvarfi fyrir heimilislausa, þar á fólk einnig kost á þjálfun til að koma sér út á vinnumarkaðinn en þar er á brattann að sækja eigirðu við heilsubrest að stríða. Stundum get ég varla gengið fyrir hnénu og mér hefur ekki liðið vel núna síðustu tvo dagana. Ég stend bara hérna og býð fólki góðan dag, bið það að njóta dagsins og segi því að guð elski það. Þannig kem ég mér í gegnum daginn,“ segir hermaðurinn fyrrverandi að lokum og kveður blaðamann brosandi.

Heimilislaus eftir að húsið brann

„Húsið mitt brann og síðan hef ég verið heimilislaus en auk þess átt í miklum vandræðum með áfengi og fíkniefni,“ segir Mecca C. sem er 47 ára og hefur búið á götunni í fimm ár. „Hve miklum vandræðum?“ spyr blaðamaður og fær einfalt svar: „ A lot [miklum].“ Mecca situr í klappstól við Market Street með ýmsa gripi á teppi í kringum sig sem hún býður til sölu. Kennir þar ýmissa grasa og má sjá munnhörpu, sólgleraugu, litlar styttur, kveikjara, krakkpípur og skóáburð.

Mecca C., 47 ára gömul heimilislaus kona í San Francisco, …
Mecca C., 47 ára gömul heimilislaus kona í San Francisco, brosir sínu breiðasta og selur ýmsan varning við Market Street og hliðargötur þess til að framfleyta sér. Hana dreymir um að starfa við hjúkrun þegar hún nær sér á strik en segist hafa átt við mikinn áfengis- og fíkniefnavanda að stríða auk andlegra annmarka. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég hef líka átt við andleg veikindi að stríða,“ segir Mecca sem er á biðlista eftir félagslegri þjónustu sem hún segir langan. „Fjöldi fólks er að bíða eftir aðstoð, borgin stendur sig vel í félagslegri aðstoð en stundum fer þetta líka bara eftir því á hverjum þú lendir [af þjónustufulltrúum/starfsfólki heilsugæslustöðva].“

Hvernig er að vera á götunni hér á veturna? „Það sleppur alveg, maður reynir að komast inn á lestarstöðvarnar eða stigagangana, maður þarf bara að kunna á hvernig hlutirnir virka hérna. „Veturnir hér eru líka frekar mildir,“ skýtur skeggjaður blökkumaður inn sem stendur upp við vegg og reykir sígarettu skammt frá og lítur út fyrir að hafa marga fjöruna sopið á vettvangi kantmanna lífsins í San Francisco.

„Svo finn ég þetta dót hérna hingað og þangað og sel það og stundum gengur það vel og stundum ekki. Áttu nokkuð sígarettu handa mér?“ spyr Mecca og eiginkona blaðamanns bjargar því. „Mig langar að koma mér út úr þessu, ég er á biðlista eftir íbúð en það tekur bara tíma. Mig dreymir um að starfa við hjúkrun í framtíðinni, eða einhvers konar umönnun, hjálpa fólki sem hefur ratað á refilstigu í lífinu. Það er ekki eins og nokkur maður biðji um þetta hlutskipti,“ segir Mecca að lokum, síðust fjögurra viðmælenda mbl.is á götum San Francisco í gærkvöldi, borgar sem er íverustaður rúmlega 8.000 heimilislausra einstaklinga, mismunandi illa staddra en ótrúlega jákvæðra þrátt fyrir þau spil sem lífið hefur útdeilt þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert