Bolsanaro sakaður um að drekka úr „holræsum sögunnar“

Jair Bolsonaro forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro forseti Brasilíu. AFP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur verið sakaður um að „drekka úr holræsum sögunnar“ eftir að hann hvatti framhaldsskólanema til að lesa bók eftir illræmdan pyntara frá tímum herstjórnarinnar. 

Bókahöfundurinn sem forsetinn mælti með er herforinginn Carlos Alberto Brilhante Ustra, sem árið 2008 varð fyrstur brasilískra hermanna til að vera fundinn sekur um mannrán og pyntingar á tímum herstjórnarinnar. Hefur Ustra m.a. verið sakaður um að beita svipu á fórnarlömb sín, gefa þeim raflost og berja þau með vínviðarreyrstöngum.

Bolsonaro er mikill aðdáandi herstjórnarinnar sem fór með völdin í Brasilíu á árabilinu 1964-1985. Á þessu tveggja áratuga tímabili voru hundruð stjórnarandstæðinga myrtir og þúsundir sættu pyntingum.

Bolsonaro hitti  framhaldsskólanemana við hlið forsetahallarinnar í dag og sést einn nemendanna segja forsetanum að knúsa kennarann sinn fyrir sig. „Er kennarinn þinn vinstrisinni,“ svaraði forsetinn þá og mannfjöldinn sprakk úr hlátri. „Segðu henni að lesa bókinna The Suffocated Truth. Bara að lesa hana,“ sagði hann. „Þetta eru staðreyndir, ekki bla bla bla vinstrimanna“.

Bókin var The Suffocated Truth – The Story the Left Doesn’t Want  Brazil to Know, eða Hinn kæfði sannleikur — Sagan sem vinstrið villl ekki að Brasília þekki var gefin út ári fyrir dauða Ustra árið 2015 og er sögð „leitast við að hrekja mýtur, blekkingar og lygar“.

Gilberto Natalini, eitt fórnarlamba Ustra lýsti nýlega í brasilískum fjölmiðlum hryllingshúsinu sem menn Ustra  hefðu verið með hann í haldi í. Eitt sinn sá ég mann hanga á hvolfi og vera skilinn svoleiðis eftir í tæpa tvo sólarhringa,“ sagði hann. „Við vorum allir dauðhræddir við Ustra af því að hann réði öllu,“ bætti hann við.  

„Það er sorglegt að forseti okkar haldi áfram að verja heigulsömustu glæpi sem maður getur framið; pyntingar,“ sagði Antônio Funari, forseti kaþólskra samtaka sem tala fyrir friði og réttlæti.

Þá sagði Sâmia Bomfim, þingkona Sósíalista frelsisflokksins á Twitter Bolsonaro „drekka úr holræsum sögunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert