Lak upplýsingum um HIV-smitaða

Lekinn olli þeim sem voru í gögnunum miklum kvíða, en …
Lekinn olli þeim sem voru í gögnunum miklum kvíða, en samkvæmt frétt AFP mæta HIV-smitaðir miklum fordómum í íhaldssömu samfélagi Singapúr. AFP

Bandarískur maður hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að leka upplýsingum um HIV-smitaða einstaklinga í Singapúr.

Bandaríkjamaðurinn Mikhy Farrera Brochez var sakfelldur í Kentucky-ríki í júní síðastliðnum fyrir að hafa reynt að nota gögnin, sem hann hafði stolið, til þess að kúga ríkisstjórn Singapúr.

Maðurinn, sem er 34 ára gamall, hafði fengið upplýsingarnar frá ástmanni sínum, virtum lækni í Singapúr, sem hafði einnig hjálpað Brochez að hylma yfir sitt eigið HIV-smit til þess að fá atvinnuleyfi í borgríkinu.

Brochez lak upplýsingum um nöfn og heimilisföng 14.200 einstaklinga víðsvegar að úr heiminum sem greinst höfðu með sjúkdóminn sem veldur alnæmi.

HIV-smitaðir fengu ekki að stíga fæti í Singapúr

Lekinn olli þeim sem voru í gögnunum miklum kvíða, en samkvæmt frétt AFP mæta HIV-smitaðir miklum fordómum í íhaldssömu samfélagi Singapúr, en smitaðir fengu lengi vel ekki að stíga fæti inn í borgríkið. Frá 2015 hafa HIV-smitaðir fengið að heimsækja ríkið, en þeir sem hyggjast setjast þar að þurfa að fara í læknisskoðun.

„Atferli sakbornings var alvarlegt og stórtækt, og hafði áhrif á þúsundir manna um heim allan,“ sagði dómarinn Robert M. Duncan Jr.

Auk tveggja ára fangelsisvistar verður Brochez undir eftirliti yfirvalda í þrjú ár. Hann hafði áður setið í fangelsi í Singapúr fyrir að ljúga til um sjúkdómsgreiningu sína, fíkniefnalagabrot og svik. 

Hann var síðar framseldur til Bandaríkjanna og var fljótlega handtekinn þegar gagnalekinn komst upp. Hann hafði þá sent móður sinni gögnin áður en honum var stungið í steininn í Singapúr og fengið þau aftur við komuna til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka