Bandarísk stjórnvöld ætla að safna DNA-sýnum frá öllum hælisleitendum sem hnepptir hafa verið í varðhald eftir að hafa komið ólöglega til landsins.
AFP-fréttaveitan greinir frá þessu og segir bandaríska heimavarnaráðuneytið vera með slíka söfnun í vinnslu. DNA-sýnin verða síðan geymd í sérstökum bandarískum gagnagrunni sem einnig geymir DNA-sýni úr brotamönnum.
Heimildamenn AFP innan ráðuneytisins segja nýju stefnuna eiga að veita landamæravörðum og útlendingaeftirlitinu skýrari mynd af ástandinu varðandi hælisleitendur og þá sem hnepptir eru í varðhald.
„Þetta mun auka möguleika okkar á að bera frekari kennsl á einhvern sem hefur komið inn í landið ólöglega,“ sagði heimildamaður sem ekki vildi láta nafns síns getið. „Þetta mun líka koma öðrum samtökum vel varðandi greiningargetu þeirra.“
Segja starfsmennirnir reglur dómsmálaráðuneytisins frá 2006 og 2010 raunar þegar kveða á um að taka eigi DNA-sýni af öllum þeim sem séu handteknir og dæmdir, en reglunum hafi ekki verið fylgt eftir til þessa.
Þá er kerfið fyrir söfnun DNA-sýnanna enn sagt vera í vinnslu og að ekki sé komin tímasetning á hvenær slík sýnataka hefjist.
Að sögn AFP eru mannréttindasamtök líkleg til að gagnrýna það verði DNA-sýni tekin úr einstaklingum, sem ekki hafa hlotið dóm, og síðan geymd.
Bandaríska landamæraeftirlitið tók fyrr á þessu ári að framkvæma svonefnd skyndi DNA-próf á hælisleitendum sem komu yfir landamærin til að ákvarða hvort einstaklingar sem fullyrtu að þeir væru skyldir væru það í raun og veru.
Nýju prófin verða mun nákvæmari og verða aukinheldur geymd.