Ætla að safna DNA-sýnum úr öllum hælisleitendum

Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.
Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. AFP

Banda­rísk stjórn­völd ætla að safna DNA-sýn­um frá öll­um hæl­is­leit­end­um sem hneppt­ir hafa verið í varðhald eft­ir að hafa komið ólög­lega til lands­ins.

AFP-frétta­veit­an grein­ir frá þessu og seg­ir banda­ríska heima­varn­aráðuneytið vera með slíka söfn­un í vinnslu. DNA-sýn­in verða síðan geymd í sér­stök­um banda­rísk­um gagna­grunni sem einnig geym­ir DNA-sýni úr brota­mönn­um.

Heim­ilda­menn AFP inn­an ráðuneyt­is­ins segja nýju stefn­una eiga að veita landa­mæra­vörðum og út­lend­inga­eft­ir­lit­inu skýr­ari mynd af ástand­inu varðandi hæl­is­leit­end­ur og þá sem hneppt­ir eru í varðhald.

„Þetta mun auka mögu­leika okk­ar á að bera frek­ari kennsl á ein­hvern sem hef­ur komið inn í landið  ólög­lega,“ sagði heim­ildamaður sem ekki vildi láta nafns síns getið. „Þetta mun líka koma öðrum sam­tök­um vel varðandi grein­ing­ar­getu þeirra.“

Segja starfs­menn­irn­ir regl­ur dóms­málaráðuneyt­is­ins frá 2006 og 2010 raun­ar þegar kveða á um að taka eigi DNA-sýni af öll­um þeim sem séu hand­tekn­ir og dæmd­ir, en regl­un­um hafi ekki verið fylgt eft­ir til þessa.

Þá er kerfið fyr­ir söfn­un DNA-sýn­anna enn sagt vera í vinnslu og að ekki sé kom­in tíma­setn­ing á hvenær slík sýna­taka hefj­ist.

Að sögn AFP eru mann­rétt­inda­sam­tök lík­leg til að gagn­rýna það verði DNA-sýni tek­in úr ein­stak­ling­um, sem ekki hafa hlotið dóm, og síðan geymd.

Banda­ríska landa­mæra­eft­ir­litið tók fyrr á þessu ári að fram­kvæma svo­nefnd skyndi DNA-próf á hæl­is­leit­end­um sem komu yfir landa­mær­in til að ákv­arða hvort ein­stak­ling­ar sem full­yrtu að þeir væru skyld­ir væru það í raun og veru.

Nýju próf­in verða mun ná­kvæm­ari og verða auk­in­held­ur geymd.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert