Bænastund var haldin til minningar um sádiarabíska blaðamanninn Jamal Khashoggi í Istanbúl í dag. Ár er liðið frá því hann var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi af sádiarabískum útsendurum. Lík hans hefur enn ekki fundist.
Hatice Cengiz, unnusta Khasoggis, var á meðal þeirra sem sátu athöfnina, en þar mátti einnig sjá Jeff Bezos, forstjóra Amazon, og einn eigenda Washington Post.
Sádiarabísk yfirvöld veittu í upphafi margar mögulegar skýringar á hvarfi Khashoggis áður en sú skýring var gefin að hann hefði verið myrtur af sádiarabískum embættismönnum sem hefðu tekið málin í eigin hendur. Khashoggi hefði svo látist eftir að til átaka kom inni á ræðismannsskrifstofunni.
Krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, tók fulla ábyrgð á morðinu í sjónvarpsviðtali síðastliðinn sunnudag en þvertók fyrir að hafa fyrirskipað morðið.
Í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar birtu í júní er fullyrt að Sádi-Arabía beri ábyrgð á morðinu og að rannsaka þurfi þátt krónprinsins.
Þær lýsingar sem fram hafa komið á morðinu eru afar ógeðfelldar. Tyrkneska blaðið Sabah greindi til að mynda frá því í síðasta mánuði að lokaorð Khashoggis hafi verið að biðja morðingja sína að hylja ekki munn sinn af því hann væri með astma og gæti kafnað. Blaðið birti nýtt afrit af upptökum af samræðum Khashoggis við liðsmenn sádiarabíska teymisins sem var sent til að drepa hann.
„Ekki hylja munninn á mér,“ sagði Khashoggi. „Ég er með astma. Ekki gera það. Þið munið kæfa mig.“
Alls hafa 11 manns verið sett á bak við lás og slá í tengslum við morðið á Khashoggi. Þar af hefur verið farið fram á dauðarefsingu yfir fimm þeirra. Réttað hefur verið yfir þeim fyrir luktum dyrum.