Fundu sprungur í 737 NG-vél Boeing

Sprungur fundust í byrði 737 NG-farþegaþotu frá Boeing þegar verið …
Sprungur fundust í byrði 737 NG-farþegaþotu frá Boeing þegar verið var að gera breytingar á vélinni. AFP

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) greindu í dag frá því að gera þurfi skoðun á 165 Boeing 737 NG-farþegaþotum innan sjö daga eftir að sprungur fundust í byrði nokkurra véla þeirrar gerðar.

Reuters-fréttaveitan segir Boeing-flugvélaframleiðandann hafa greint FAA frá málinu eftir að fyrirtækið kom auga á sprungur í byrði flugvélar í Kína sem verið var að gera breytingar á. FAA sagði sambærilegar sprungur hafa fundist á nokkrum vélum eftir að fleiri vélar þessarar gerðar voru skoðaðar.

Alls hafa 1.911 vélar þessarar gerðar verið framleiddar og segir FAA fleiri slíkar vélar verða skoðaðar síðar, en ekki tekur nema um klukkutíma að skoða hverja vél.

Bandarísku flugfélögin Southwest Airlines, United Airlines og American Airlines eru meðal þeirra sem eru með 737 NG-vélarnar í notkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert