Donald Trump Bandaríkjaforseti stakk upp á því að flóttamenn yrðu skotnir í fæturna til að hægja á flæði þeirra yfir landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýútkominni bók sem rituð er af tveimur blaðamönnum New York Times. Í bókinni, sem ber heitið Border Wars: Inside Trump's Assault on Immigration, er fjallað um öfgafullar aðgerðir Trumps til að stemma stigu við komu flóttamanna til Bandaríkjanna.
Í bókinni er meðal annars sagt frá því þegar Trump á að hafa rætt þann möguleika við ráðgjafa sína, í einrúmi, að hermenn myndu skjóta flóttamenn í fæturna. Var honum bent á að það væri ólöglegt. Áður hafði Trump lagt það til opinberlega að hermenn fengju leyfi til að skjóta flóttamenn sem grýttu hermenn við landamærin.
Á forsetinn einnig að hafa lagt til að reisa rafmagnsgirðingu með gaddavír og reknöglum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og koma krókódílum og snákum fyrir í síki við landamærin. Hvorki forsetinn né talsmenn Hvíta hússins hafa brugðist við þeim fullyrðingum sem fram koma í bókinni.
Michael Shear og Julie Davis eru höfundar bókarinnar og er efni hennar byggt á viðtölum við á annan tug embættismanna sem kjósa að koma fram undir nafnleynd. Flest ummæli forsetans eiga að hafa fallið í mars á þessu ári þegar innflytjendamál komust í hámæli.
Innflytjendamálin hafa verið eitt af helstu stefnumálum Trumps frá því hann settist á forsetastól. Árið 2017 heimilaði forsetinn að tekið yrði á móti 50.000 flóttamönnum, árið eftir var fjöldinn minnkaður niður í 45.000 og svo niður í 30.000 í ár. Á næstu 12 mánuðum munu Bandaríkin taka á móti 40% færri flóttamönnum en þau hafa hingað til gert í forsetatíð Donalds Trumps.
Bygging landamæramúrs var eitt af helstu kosningaloforðum Trumps í kosningabarátunni fyrir þremur árum. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur tryggt að 3,6 milljarðar Bandaríkjadala sem nota átti í önnur verkefni fari í að reisa múrinn og er bygging hans nú þegar hafin.