Sérfræðingar fara varlega í allar fullyrðingar en veðmangarar veðja á Gretu Thunberg og loftslagsbaráttu hennar þegar kemur að friðarverðlaunum Nóbels. Tilkynnt verður um handhafa verðlaunanna í næstu viku.
Tveir einstaklingar munu hljóta bókmenntaverðlaunin í ár þar sem veitingu verðlaunanna var frestað í fyrra vegna hneykslismáls tengdu dómnefndinni.
Þrátt fyrir meðbyr Gretu Thunberg í veðbönkum er afar erfitt að segja til um hvort hún eigi möguleika því listinn yfir þá sem koma til greina er ekki birtur opinberlega. Síðast en ekki síst deila sérfræðingar um hvort það sé bein tenging á milli loftslags og vopnaðra átaka. Tilkynnt verður um friðarverðlaunin í Ósló 11. október.
Daginn áður er aftur á móti von á tilkynningu frá sænsku nóbelsverðlaunaakademíunni um handhafa bókmenntaverðlauna Nóbels. Í fyrra var tikynnt um að engin bókmenntaverðlaun yrðu afhent það árið en bókmenntaverðlaun Nóbels voru fyrst afhent árið 1901. Þetta er í fyrsta sinn frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk að verðlaunin eru ekki afhent. Sjö sinnum hefur ekki verið hægt að veita verðlaunin á tilsettum tíma, en í þau skipti voru þau afhent síðar.
Allt hófst þetta með #MeToo-herferðinni í nóvember 2017 en þá birti sænska dagblaðið Dagens Nyheter frásagnir átján kvenna sem sökuðu Jean-Claude Arnault, sem verið hefur mjög áhrifamikill í sænsku bókmenntalífi um árabil, um að hafa nauðgað þeim, beitt þær kynferðislegu ofbeldi eða áreitt þær kynferðislega.
Arnault er kvæntur skáldkonunni Katarinu Frostenson (valin inn í akademíuna 1992). Þau hjónin hafa um langt árabil rekið bókmenntaklúbbinn Forum, sem þau eiga, og notið góðs af fjárframlögum frá akademíunni.
Tveimur dögum eftir að lögreglan hóf rannsókn á ásökunum kvennanna í desember sleit Sænska akademían öll tengsl sín við Arnault.
Meðal þeirra sem eru nefnd sem mögulegir handhafar í ár er pólska skáldkonan Olga Tokarczuk, Ngugi Wa Thiong'o frá Kenýa, Ismail Kadare frá Albaníu, Joyce Carol Oates frá Bandaríkjunum og Haruki Murakami frá Japan.