Skotinn til bana eftir árás í París

Lögregla og sjúkalið skammt frá staðnum þar sem árásin var …
Lögregla og sjúkalið skammt frá staðnum þar sem árásin var gerð í morgun. AFP

Franska lögreglan skaut karlmann til bana í morgun eftir að hann hafði ráðist á lögreglumenn með hnífi fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar, skammt frá Notre Dame-dómkirkjunni í París. Maðurinn reyndi að komast inn í bygginguna, en þegar lögreglumaður reyndi að hefta för hans, stakk hann hann.

Tveir lögreglumenn til viðbótar særðust alvarlega við árás mannsins sem samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar starfaði í byggingunni. Ekki er vitað um tildrög árásarinnar.

Svæðinu hefur nú verið lokað fyrir umferð og einnig neðanjarðarlestarstöð í nágrenninu og er það núna undir stjórn lögreglu. Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, sem hafði áformað heimsókn til Tyrklands í dag, hefur nú afboðað hana vegna árásarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert