Erdogan á fund Trump

Erdogan Tyrklandsforseti.
Erdogan Tyrklandsforseti. AFP

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og kollegi hans Donald Trump koma til með að hittast í Washington í næsta mánuði til að ræða ástandið í norðurhluta Sýrlands. 

Margir bjuggust við því að forsetarnir tveir myndu ræða málefni Sýrlands á hliðarlínum Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í september, en úr þeim fundi varð ekki. 

Yfirvöld í Washington hafa reynt að koma í veg fyrir aðgerðir Tyrkja gegn hersveitum Kúrda í norðurhluta Sýrlands, sem Bandaríkin styðja en Tyrkir álíta hryðjuverkamenn. Bandaríkjamenn hafa unnið náið með sveitum Kúrda gegn Ríki íslam í Sýrlandi. 

Eftir viðræður á milli ríkjanna í ágúst náðist samkomulag um að koma á fót hlutlausu svæði við landamæri Tyrklands og Sýrlands. Hafa tyrknesk yfirvöld þó sakað Bandaríkin um að tefja fyrir því að samkomulagið um hlutlaust svæði nái fram að ganga. 

Í símtali leiðtoganna fyrr í mánuðinum ræddu þeir hlutlausa svæðið og fullyrti Erdogan við Trump að svæðið myndi skapa „nauðsynlegar aðstæður“ fyrir sýrlenska flóttamenn að snúa aftur til Sýrlands. 

Yfir 3,6 milljónir sýrlenskra flóttamanna dvelja nú í Tyrklandi.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert