Kansasbúar harma brotthvarf Icelandair

Flugvél Icelandair.
Flugvél Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Icelandair hóf beint flug yfir Atlantshafið til Kansasborgar í Missouri-ríki var um að ræða fyrsta beina flugið yfir Atlantshafið til Alþjóðaflugvallarins í Kansas. Þáverandi borgarstjóri borgarinnar, Sly James, sagði flugið marka upphafið „að nýjum kafla í þróun Kansasborgar“. 

Þeim tveggja ára kafla lauk í síðustu viku þegar Icelandair tilkynnti að félagið myndi hætta flugi til borgarinnar. Þessi ákvörðun var tekin við árlega endurskoðun á flugáætlun Icelandair fyrir sumarið 2020. 

Eftir því sem fram kemur á vef Kansas City Star var flug Icelandair eina beina flugið yfir Atlantshafið til Kansasflugvallar og mun ákvörðun Icelandair hafa verið mikið reiðarslag fyrir flugmálayfirvöld í borginni. Samkvæmt Kansas City Star hafði framkvæmdastjórn flugvallarins unnið að því í áratug að fá beint flug frá Evrópu til flugvallarins. 

Innan við 1% af markaðnum

Eftir að Icelandair hóf flug til Kansas varð Keflavíkurflugvöllur einn af tíu vinsælustu áfangastöðunum fyrir ferðamenn Kansasborgar. 

„Markaðurinn brást á jákvæðan hátt við komu Icelandair. Það versta í stöðunni fyrir okkur hefði verið að Icelandair kæmi til sögunnar og markaðurinn breyttist ekki. En við sáum talsverða aukningu í spurn eftir beinu flugi yfir Atlantshafið,“ sagði Justin Meyer, staðgengill yfirmanns flugmála hjá Alþjóðaflugvellinum í Kansas. 

Á síðasta ári flugu 6.792 farþegar með Icelandair frá Kansas. Það er minna en helmingur af þeim 16.457 farþegum sem flugu með Air Canada til Toronto. 3 milljónir flugu með flugfélaginu Southwest og 1 milljón farþega með Delta. 

Í júlí á þessu ári höfðu 5.137 farþegar flogið með Icelandair, en það er um tíundi hluti af 1% þeirra farþega sem flogið hafa frá flugvellinum í ár. 

Spurn eftir flugi til Evrópu mikil

Meyer segir flugvöllinn enn vilja opna á nýjar leiðir til Evrópu. 

„Þeirri viðleitni hefur ekki verið hætt. Reynsla okkar með Icelandair mun bæta stöðu borgarinnar fyrir næstu tækifæri.“

Spurnin er að sögn Meyer mest eftir beinu flugi til Parísarborgar, Lundúna og Dublin. Meyer telur að beint flug til stórborga á borð við París, Lundúna eða Amsterdam yrði árangursríkast. 

Flugmálasérfræðingurinn Seth Kaplan telur það ólíklegt að brotthvarf Icelandair frá Kansas komi í veg fyrir að önnur flugfélög íhugi Kansas sem áfangastað frá Evrópu. 

„Fólk veit að Icelandair hafði sín sérstöku vandamál. Ég held ekki að þetta geri önnur flugfélög ólíklegri til að hefja flug hingað. Ég er viss um að við erum á listanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka