Dönsku flugmálasamtökin sem í eru Kaupmannahafnarflugvöllur, flugvöllurinn í Billund, Flugfélögin SAS og Norwegian, leggja til að lagt verði sérstakt umhverfisgjald á allar flugferðir frá Danmörku. Samtökin leggja til að féð renni í óháðan loftslagssjóð, sem á að styðja við rannsóknir á grænum lausnum í flugferðum.
Frá þessu var greint í fréttum Danska ríkisútvarpsins, DR, í morgun.
Hugmyndin er að gjaldið sé í samræmi við hversu mikil umhverfisáhrif viðkomandi flugferð hefur og búist er við að árlega muni safnast á bilinu 250 - 300 milljónir danskra króna í sjóðinn. Það nemur um 4,5 - 5,5 milljörðum íslenskra króna. Á síðasta ári voru 18,2 milljónir flugferða farnar frá Danmörku og á þeim forsendum má áætla að gjaldið gæti numið 16,2 dönskum krónum á hvern flugmiða, sem jafngildir um 300 íslenskum krónum.
„Við viljum taka af skarið með því að safna stórri upphæð og þannig haft virkileg áhrif og minnka kolefnislosun á heimsvísu,“ segir Thomas Woldbye, starfandi forstjóri Kaupmannahafnarflugvallar í samtali við DR. „Við minnkum ekki kolefnislosun með því að Danir hætti að ferðast með flugvélum heldur með því að finna lausnir, sem gætu minnkað skaða losunarinnar. Við gætum þannig haft áhrif á alla heimsbyggð.“
Tillögurnar hafa verið kynntar Benny Engelbrecht samgönguráðherra Danmerku og Dan Jørgensen sem er loftslagsráðherra. Þeir hafa ekki tekið afstöðu til þeirra, en í samtali við DR lýstu nokkrir stjórnmálamenn yfir ánægju með tillögur samtakanna.