Spænski óperusöngvarinn Placido Domingo, sem sakaður hefur verið um að hafa áreitt konur kynferðislega í áratugi, var ekki viðstaddur athöfn í gærkvöldi þar sem honum voru veitt mexíkósku Batuta-verðlaunin. Við athöfnina var spilað myndskeið frá söngvaranum þar sem hann sagðist leiður yfir fjarveru sinni, en minntist ekkert á ásakanirnar.
Batuta-verðlaunin eru veitt þeim sem þykja skara fram úr í óperuheiminum og fengu 15 aðrir listamenn þau í gær. Meðal þeirra eru breska tónskáldið Michael Nyman, mexíkóska óperusöngkonan Maria Luisa Tamez og mexíkóska tónskáldið Enrique Batiz sem hefur einnig verið sakaður um kynferðislega áreitni.
Domingo sem er 78 ára var útnefndur til verðlaunanna í maí síðastliðnum, en þegar ásakanirnar gegn honum urðu opinberar ákváðu aðstandendur verðlaunanna að bíða með að veita honum þau, þar til mál hans hefðu verið leidd til lykta. Á föstudaginn var svo ákveðið að standa við fyrri áætlanir.
Um 20 konur hafa stigið fram og sagt Domingo hafa kysst þær án þeirra vilja, þuklað á þeim og káfað. mbl.is
Sögurnar ná aftur til 9. áratugar síðustu aldar. Hann hefur svarað því til að hann hafi ekki orðið var við annað en að öll hans samskipti við konur hafi verið með þeirra vilja.
Domingo sagði starfi sínu sem stjórnandi Los Angeles-óperunnar, sem hann hafði gegnt frá 2003, lausu í síðustu viku og í vikunni á undan var greint frá því að hann myndi ekki koma aftur fram í Metropolitan-óperunni í New York.
Hann hefur ekki komið fram í Bandaríkjunum síðan ásakanirnar gegn honum komu fram í byrjun ágústmánaðar og höfðu sinfóníuhjómsveit Fíladelfíuborgar og San Fransiskó-óperan þegar hætt við að halda sýningar með honum.
Annað er uppi á teningnum í Evrópu þar sem þessar ásakanir virðast hafa haft lítil áhrif á feril söngvarans. Í sumar hélt hann röð tónleika í Austurríki og Ungverjalandi við mikla hylli og áformar tónleika í Zürich og Moskvu.