Dómari við alríkisdómstól í New York hafnaði í dag kröfum lögmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að aðgengur að skattframtölum hans væri óheimill vegna friðhelgi hans sem forseta. Þetta kemur fram í frétt AFP um málið.
Dómarinn, Victor Marrero, sagði að sitjandi forsetar Bandaríkjanna væru ekki undanþegnir rannsóknum um möguleg glæpsamleg athæfi. Dómstóllinn gæti ekki fallist á að Trump nyti svo víðtækrar friðhelgi þýddi að hann væri yfir lögin hafinn.
Trump höfðaði málið gegn saksóknaranum Cyrus Vance sem hafði farið fram á að fá afhent skattframtöl Trumps frá endurskoðendafyrirtæki hans allt aftur til ársins 2011. Vance hefur haft til rannsóknar greiðslur sem Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trumps, innti af hendi til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels fyrir hans hönd.
Búist er við að Trump áfrýi niðurstöðunni. Forsetinn hefur ítrekað hafnað því að gera skattframtöl sín opinber eins og forverar hans hafa gert undanfarna áratugi.