Svipti barnabörnin titlum sínum

Sænska konungsfjölskyldan sumarið 2018. Tvö barnabörn hafa bæst í hópinn …
Sænska konungsfjölskyldan sumarið 2018. Tvö barnabörn hafa bæst í hópinn síðan myndin var tekin.

Karl Gústaf Svíakonungur svipti í morgun fimm af sjö barnabörnum sínum titlum sínum sem konunglegar hátignir og eru þau því frá og með deginum í dag almennir borgarar. Þau munu halda titlum sínum sem prinsar og prinsessur, auk titla hertoga og hertogaynja og munu einnig halda stöðu sinni í erfðaröðinni, en verða ekki á framfæri sænska ríkisins.

Þetta tilkynnti Fredrik Wersäll ríkismarskálkur Svíþjóðar á blaðamannafundi í morgun.

Um er að ræða börn Karls Filips Svíaprins og Magdalenu Svíaprinsessu. Karl Filip á börnin Alexander prins og Gabriel prins með eiginkonu sinni Sofíu prinsessu, sem er fyrrverandi undirfatafyrirsæta og þátttakandi í raunveruleikaþætti.

Magdalena á þrjú börn með eiginmanni sínum, bandaríska kaupsýslumanninum Christopher O' Neill, þau Leonore prinsessu, Nicolas prins og Adrienne prinsessu. 

Staða tveggja barna Viktoríu krónprinsessu og Daníels prins, þeirra Estelle prinsessu og Oscars prins verður óbreytt.

Wersäll sagði í umfjöllun sænska ríkisútvarpsins, SVT, að við þessa breytingu yrði öllum kvöðum um að taka á sig konunglegar skyldur aflétt af börnunum. Hann sagðist ekki eiga von á að þetta nýja fyrirkomulag myndi fela í sér minni kostnað við sænsku hirðina.

Spurður hvernig Karl Filip og Magdalena hefðu brugðist við þessari breytingu sagði hann að þau hefðu tekið henni á jákvæðan hátt.

Nokkur breyting verður einnig á högum þeirra Karls Filips, Sofiu og Magdalenu en frá og með deginum í dag ákveður Svíakonungur hvaða störfum þau gegna.

Tilkynning á vef sænsku hirðarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert