Fjölmargir umhverfisverndarsinnar í samtökunum Extinction Rebellion hafa verið handteknir í mótmælum víða um heim í dag og á síðustu dögum. Í London í Bretlandi og í Sidney í Ástralíu lokuðu mótmælendur fjölförnum umferðargötum til að krefjast aðgerða í loftslagsmálum.
30 manns voru handteknir í borginni Sidney í Ástralíu þegar fleiri hundruð mótmælendur settust á vegi og lokuðu fyrir umferð. Nokkrir voru einnig handteknir við stjórnarbyggingu í Wellington í Nýja-Sjálandi. Um 50 manns voru handteknir í borginni Amsterdam í Hollandi fyrir að reisa að tjald á bílvegi. Í mótmælum í London í Bretlandi voru rúmlega 20 manns handtekinir.
Á næstu tveimur vikum er viðbúið að mótmæli verða í um 60 borgum víða um heim. Samtökin krefjast aðgerða í loftslagsmálum þegar í stað. „Við höfum reynt margt eins og að þramma göturnar, bera fram óskir okkar og vekja máls á málstað okkar með ýmsum hætti en núna er tíminn að renna frá okkur,“ segir Jane Morton aðgerðarsinna við AFP-fréttaveituna. „Við eigum enga annarra kosta völ en að halda áfram að mótmæla þangað til að stjórnvöld lýsa því neyðarástandi vegna loftslagsmála og grípa til aðgerða til að bjarga okkur,“ segir hún ennfremur.
Stjórnvöld í Ástralíu hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi í loftslagsmálum. Hins vegar eru þau á öndverðum meiði og segjast gera sitt til að draga úr kolefnisútblæstri. Í síðustu viku sagði Peter Dutton, innanríkisráðherra Ástralíu, að myndum og nöfnum af mótmælendum samtakanna yrði dreift víða þeim til „skammar“.
Merki samtakanna Extinction Rebellion er táknrænt fyrir baráttu þeirra en það er stundaglas inn í hring sem táknar stuttan tíma til stefnu í aðgerðum í loftslagsmálum.