Nýtt útilistaverk bandaríska listamannsins Jeff Koons til minningar um fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar í París 2015 hefur fengið misjöfn viðbrögð. Um risavaxinn túlípanavönd er að ræða en gagnrýnendur segja verkið frekar minna á sykurpúða eða sé jafnvel klámfengið.
Verkið Bouquet of Tulips er gjöf listamannsins til Parísarbúa og var það afhjúpað skammt frá Champs-Elysées á föstudag.
Verkið er 12 metrar að hæð og staðsett við Le Petit Palais. Koons segir að verkið eigi að sýna stuðning hans og samstöðu Bandaríkjanna með frönsku þjóðinni.
Ég, sem íbúi í New York, upplifði 11. september og þá sorg sem var yfir borginni, sagði Koons í tilefni af afhjúpuninni og bætti við að 80% af því fé sem safnaðist við sölu á höfundarrétti verksins rynni til fjölskyldna fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar í París. Alls létust 130 í árásinni.
Allt frá afhjúpun Bouquet of Tulips á föstudag hafa Parísarbúar og gagnrýndur verið duglegir að segja skoðun sína á verki. Orð eins og hryllingur, gróteskt og klámfengið heyrast oftast.
Heimspekingurinn Yves Michaud skrifar í L'Obs-tímaritið að það sé staðreynd að verkið sé klámfengið. Hann gengur jafnvel svo langt að tala um 11 litaglaða endaþarma.
Annar segir að verkið minni helst á litaglaða sykurpúða og ýmsir segjast ætla að halda sig fjarri svæðinu þar sem verkið er til þess að þurfa ekki að horfa á þennan hrylling.
Borgarstjóri Parísar, Anne Hildago, segist aftur á móti ekkert skilja í þessari gagnrýni á þetta fallega verk.