Samningur „í grundvallaratriðum útilokaður“

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þegar …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þegar þau hittust í ágúst. AFP

Heimildir breska dagblaðsins Daily Telegraph innan úr forsætisráðuneyti Bretlands herma að mögulegur samningur við Evrópusambandið um útgöngu Breta úr sambandinu sé „í grundvallaratriðum útilokaður“ eftir símtal sem Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, átti við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í morgun.

Merkel sagði „gríðarlega ólíklegt“ að tillaga ríkisstjórnar Johnsons að útgöngusamningi, sem kynnt var fyrir leiðtogum Evrópusambandsins nýverið, gæti orðið grunnur að samningi. Merkel sagði enn fremur að hún gæti ekki stutt útgöngusamning nema Norður-Írland yrði áfram innan tollabandalags sambandsins.

Haft er eftir talsmanni bresku ríkisstjórnarinnar að „hreinskilin skoðanaskipti“ hefðu átt sér stað í símtalinu en talsmaður Evrópusambandsins sagði ekkert hefði breyst með því. Afstaða sambandsins væri óbreytt og áfram væri unnið að því að reyna að landa útgöngusamningi. Taldi hann ekki að viðræðum væri hætt.

Bresk stjórnvöld hafa ítrekað sagt að ekki sé ásættanlegt að Norður-Írland verði innan tollabandalags Evrópusambandsins á meðan afgangurinn af breska ríkinu verði utan þess. Ennfremur sé ekki hægt að fallast á að Bretland í heild verði áfram innan tollabandalagsins eftir að hafa formlega yfirgefið sambandið.

Gert er ráð fyrir því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið formlega 31. október en lög voru samþykkt á breska þinginu í byrjun september að frumkvæði stjórnarandstöðunnar í óþökk ríkisstjórnar Johnsons þess efnis að honum beri að óska eftir því við sambandið að útgöngunni verði frestað að minnsta kosti um þrjá mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert