Telja þingið og andstæðinga Brexit bera sökina

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Megi marka niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar telur almenningur í Bretlandi fremur að andstæðingum útgöngu Breta úr Evrópusambandinu á breska þinginu og sambandinu sjálfu verði um að kenna ef ekki verður af útgöngunni 31. október eins og til stendur en Boris Johnson forsætisráðherra landsins.

Forsætisráðherrann hefur lagt þunga áherslu á það síðan hann tók við embætti í sumar að Bretland muni ganga úr Evrópusambandinu 31. október. Hins vegar hafa þingmenn á breska þinginu, sem andvígir eru útgöngunni, reynt að koma í veg fyrir að af því geti orðið og gæti vel farið svo að þeim takist það.

Búist er við að þingkosningar verði líklega í nóvember og þykir skoðanakönnunin benda til þess að óánægja kjósenda með að af útgöngunni verði ekki áður en þær fara fram muni síður beinast að Johnson og Íhaldsflokki hans. Þykja niðurstöður könnunarinnar fyrir vikið vera jákvæðar fréttir fyrir forsætisráðherrann.

Samkvæmt skoðanakönnuninni, sem framkvæmd var af fyrirtækinu ComRes, telja 83% sökina vera breska þingsins gangi Bretland ekki úr Evrópusambandinu 31. október, 70% andstæðinga útgöngunnar í þinginu og 63% framkvæmdastjórnar sambandsins. Hins vegar myndu 56% telja að sökin væri hjá Johnson.

Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert