Joe Biden, sem sækist eftir forsetaútnefningu Demókrataflokksins fyrir kosningarnar á næsta ári, segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi svikið þjóð sína og brotið embættiseið. Hann segist styðja demókrata í fulltrúadeildinni sem ætla að kæra Trump til embættismissis vegna samskipta hans við Volodymir Zelinskí, forseta Úkraínu. Þetta er í fyrsta skipti sem Biden tjáir sig um samskipti Trumps og Úkraínuforseta.
„Það á að kæra hann til embættismissis til að standa vörð um stjórnarskrána okkar, lýðræðið og almenn heilindi,“ sagði Biden við stuðningsmenn sína sem hlýddu á hann á kosningafundi í New Hampshire í dag.
Hvíta húsið greindi frá því í gær að ríkisstjórn Trumps muni ekki með nokkrum hætti starfa með þingmönnum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í ákæruferlinu forsetanum.
Trump er sakaður um að hafa þrýst á Zelenskí í símtali í sumar að láta rannsaka bæði Joe Biden og Hunter, son hans, vegna tengsla þess síðarnefnda við úkraínska gasfyrirtækið Burisma. Trump hefur viðurkennt að hafa nefnt málefni feðganna í símtalinu.