Tugir þúsunda Sýrlendinga sem tóku þátt í hernaði Frelsishers Sýrlands (FSA) hafa verið kallaðir til starfa af tyrkneskum yfirvöldum en þeim er ætlað að taka þátt í hernaði Tyrkja gegn hersveitum Kúrda í Sýrlandi.
Tyrknesk yfirvöld skilgreina hersveitir Kúrda sem hryðjuverkamenn og ætla að ráðast inn í Sýrland gegn þeim eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti að hann ætlaði að kalla her sinn heim frá landamærum Sýrlands og Tyrklands.
Trump segir núna að hernaður Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum sé versta ákvörðun sem tekin hafi verið í sögu landsins og hann ætli að tryggja hermönnum örugga heimferð. Vísar forsetinn til innrásar Bandaríkjanna í Írak 2003.
The United States has spent EIGHT TRILLION DOLLARS fighting and policing in the Middle East. Thousands of our Great Soldiers have died or been badly wounded. Millions of people have died on the other side. GOING INTO THE MIDDLE EAST IS THE WORST DECISION EVER MADE.....
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 9, 2019
Sýrlensku hermennirnir sem um ræðir eru flestir frá svæðum í norðvesturhluta Sýrlands sem Tyrkir hafa ráðið yfir frá árunum 2016 og 2018. Þeim hefur verið smalað saman í fyrrverandi flóttamannabúðum í tyrkneska landamærabænum Akcakale. FSA naut stuðnings stjórnvalda í Ankara, bæði fjárhagslega og í vopnum. Að minnsta kosti 18 þúsund þeirra munu taka þátt í hernaði Tyrkja.
Að sögn Abdelrahman Ghazi Dadeh, talsmanni Anwar al-Haq, sem er lítil deild innan FSA, verða átta þúsund þeirra sendir í sýrlenska landamærabæinn Tal Abyad og 10 þúsund í bæinn Ras al-Ain. Ekki hefur verið gefið upp hversu margir muni taka þátt í hernaði í Kobane. Allir þrír bæirnir eru undir stjórn varnarsveita Kúrda (YPG). Talið er fullvíst að innrásin hefjist í kvöld.