Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), viðraði áhyggjur sínar af hernaðaraðgerðum Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi á fundi sínum með Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, í Istanbúl í morgun.
„Ég deildi alvarlegum áhyggjum mínum af yfirstandandi aðgerðum og hættunni á auknum óstöðugleika á svæðinu,“ sagði Stoltenberg við fréttamenn eftir fund sinn með utanríkisráðherranum. Hann sagði að öllum væri ljóst að öryggi Tyrklands væri ógnað en þrátt fyrir það lagði hann til að Tyrkir gættu hófsemi í aðgerðum sínum í Sýrlandi.
Stoltenberg lagði áherslu á mikilvægi Tyrklands innan NATO en að hernaðaraðgerðir gegn Kúrdum mættu ekki grafa undir árangrinum sem náðst hefur í baráttunni við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Ríki íslams.
Cavusoglu gagnrýndi harðlega viðbrögð þeirra Evrópuríkja sem fordæmt hafa hernaðaraðgerðirnar. „Þetta er hræsni,“ sagði hann og bætti við að Tyrkir hafi reynt allar mögulegar leiðir í milliríkjasamskiptum áður en gripið hafi verið til aðgerða. „Við þurfum að útrýma ógninni,“ sagði Cavusoglu.