Öfgahægriskoðanir og gyðingahatur einfara

Aldrei aftur stendur á skilti sem komið var fyrir við …
Aldrei aftur stendur á skilti sem komið var fyrir við samkunduhús gyðinga í kjölfar skotárásarinnar í Halle á miðvikudag. AFP

Karlmaðurinn, sem myrti tvo þegar hann ætlaði að ráðast inn í samkunduhús gyðinga í þýska bænum Halle á miðvikudag, hefur játað og segir að gjörðir sínar hafi verið drifnar áfram af gyðingahatri og öfgahægriskoðunum.

Þetta kom fram í yfirlýsingu saksóknara í Halle í dag.

Játning hins 27 ára gamla Stephan Balliet var yfirgripsmikil en hann var yfirheyrður í nokkrar klukkustundir.

„Hann staðfesti að öfgahægriskoðanir og gyðingahatur væru ástæðurnar fyrir árásinni,“ sagði talsmaður saksóknara við fjölmiðla.

Balliet skaut tvo til bana rétt fyrir utan samkunduhúsið eftir að honum mistókst að komast þangað inn. Talið er að um 70-80 manns hafi verið þar inni á heil­ög­um degi Yom Kipp­ur.

Lögreglumaður á vakt fyrir utan heimili föður árásarmannsins.
Lögreglumaður á vakt fyrir utan heimili föður árásarmannsins. AFP

Nágrannar árásarmannsins og faðir hans hafa lýst honum sem einfara sem eyddi nánast öllum stundum fyrir framan tölvuskjáinn. 

Samkvæmt þýskum fjölmiðlum voru fórnarlömbin valin af handahófi þegar árásarmanninum hafði mistekist að komast inn í samkunduhúsið. Auk skotvopna fann lögregla töluvert af heimatilbúnu sprengiefni við leit hjá honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert