Breski vígamaðurinn El Shafee Elsheikh, sem var fluttur í leynifangelsi bandaríska hersins utan Sýrlands skömmu áður en Tyrkir hófu hernað á svæði Kúrda í Sýrlandi, óskaði eftir því skömmu fyrir flutninginn að fá að snúa aftur til Bretlands.
Elsheikh er einn fjögurra Breta sem ganga undir heitinu „Bítlarnir“ og eru þekktir fyrir sérstaklega hryllilegar aftökur sem þeir tóku upp á myndskeið. Aðferðir þeirra við aftökur og pyntingar vöktu jafnvel óhug meðal félaga þeirra innan vígasamtakanna. Meðal þeirra sem þeir tóku af lífi er bandaríski blaðamaðurinn James Foley og breski hjálparstarfsmaðurinn David Haines.
Bresk stjórnvöld hafa svipt El Shafee Elsheikh ríkisborgararétti en hann er fæddur í Bretlandi og bjó þar þangað til hann fór til Sýrlands árið 2014. Elsheikh sagði í viðtali við ITV-sjónvarpsstöðina í síðustu viku að hann teldi öryggi sínu ógnað í fangelsi Kúrda í Sýrlandi og að hann vildi koma fyrir rétt í Bretlandi. „Ef Bretland vill rétta yfir mér mun ég verja mig sjálfur á þann hátt sem ég kann.“
Elsheikh sagði einnig í viðtalinu að hann hefði aldrei framið glæp í Bandaríkjunum og ætti ekkert þar. Elsheikh var bifvélavirki í vesturhluta London áður en hann gekk til liðs við Ríki íslams. Hann var handtekinn af varnarsveitum Sýrlendinga (SDF), en Kúrdar eru þar í meirihluta, í janúar 2018.
Dóttir Haines, Bethany, segir létti að El Shafee Elsheikh og félagi hans, Alexanda Kotey, hafi verið fluttir í fangelsi Bandaríkjamanna. Faðir hennar var tekinn af lífi af einum „Bítlanna“, Jihadi John, sem var drepinn í loftárás í Sýrlandi árið 2015. „Réttlæti er það sem við bíðum eftir. Það er ekkert annað í boði,“ sagði Bethany Haines í viðtali við ITV. Hún segir gríðarlega mikilvægt að það sé nánast vonlaust fyrir þá að sleppa núna.