Hugsanlega að ná saman um samning

Boris Johnsson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnsson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Helgin fer í viðræður á milli ríkisstjórnar Bretlands og Evrópusambandsins um nýtt tollafyrirkomulag fyrir Írland sem gæti orðið til þess að hægt yrði að semja um það með hvaða hætti Bretar segja skilið við sambandið.

Talið er að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafi samþykkt nýja nálgun í þeim efnum sem orðið hafi til þess að Evrópusambandið tilkynnti að viðræðurnar væri komnar á nýtt stig. Fyrir helgi stefndi allt í að viðræðunum yrði slitið.

Til stendur að Bretland gangi úr Evrópusambandinu 31. október, en í byrjun september voru samþykkt lög á breska þinginu, í andstöðu við ríkisstjórn landsins, þess efnis að takist ekki að landa samningi verði að fresta útgöngunni.

Ekki liggur fyrir í hverju möguleg ný nálgun liggur. Talið er að hugsanlega verði Norður-Írland áfram í tollabandalagi með Evrópusambandinu en bresk stjórnvöld muni hins vegar halda utan um það að því er segir á fréttavef Daily Telegraph.

Spurður úr í þetta sagði Johnson að þó viðræður væru komnar á annað stig þýddi það ekki sjálfkrafa að samið yrði. Enn fremur að hann myndi ekki undir neinum kringumstæðum samþykkja eitthvað sem þýddi að Bretland í heild gæti ekki notið fulls ávinnings af útgöngunni úr Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert