Sýrlenskar hersveitir sendar gegn Tyrkjum

AFP

Sýrlenskar hersveitir verða sendar að landamærum Sýrlands og Tyrklands til þess að bregðast við innrás tyrkneska hersins eftir að Kúrdar í norðurhluta landsins komust að samkomulagi um það við sýrlenska ráðamenn.

Haft er eftir talsmönnum Kúrda í frétt AFP að allar leiðir séu til skoðunar til þess að verjast árásum Tyrkja. Tyrknesk stjórnvöld líta á hersveitir Kúrda í Sýrlandi sem hryðjuverkamenn og hafa áhyggjur af því að þeim verði beitt gegn Tyrklandi. Kúrdar hafa lengi viljað stofna sjálfstætt ríki og hafa gert kröfu um landsvæði í Tyrklandi, Írak og Íran auk Sýrlands.

Tyrkneskir hermenn í Sýrlandi.
Tyrkneskir hermenn í Sýrlandi. AFP

Kúrdar tilkynntu um samkomulagið við stjórnvöld í Sýrlandi í dag. Innrás Tyrkja í Sýrland hófst í kjölfar þess að Bandaríkjamenn drógu til baka herlið sitt af svæðinu. Bandaríkjamenn voru áður bandamenn Kúrda í stríðinu gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Hafa Kúrdar sakað Bandaríkjamenn um svik.

Kúrdar hafa sagt samkomulag sitt við Sýrlandsstjórn nauðsynlegt til þess að stöðva sókn Tyrkja. Þurfi þeir að velja á milli málamiðlunar við sýrlenska ráðamenn eða útrýmingar fólks síns verði það fyrrnefnda að sjálfsögðu fyrir valinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert