Ríki Evrópusambandsins hafa hætt vopnasölu til Tyrkja. Þetta var ákveðið einróma á fundi utanríkisráðherra sambandsins í Lúxemborg í dag.
Í yfirlýsingu frá ráðherraráði ESB fordæma aðildarríkin innrásina sem þau segja „spilla stöðugleika og öryggi alls svæðisins“ og hafa í för með sér þjáningu fyrir almenna borgara og grafa undan þeim árangri sem náðst hefur í baráttuni við Ríki íslam.
„Evrópusambandið áréttar að það muni ekki veita stuðning til stjórnvalda á svæðum þar sem brotið er á réttindum íbúa,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni. Nokkur ríki Evrópusambandsins höfðu þegar lýst því yfir að vopnasölu til Tyrkja yrði hætt, þeirra á meðal Þjóðverjar.
Nú hafa, sem fyrr segir, öll ríki bandalagsins slegist í hópinn og hætt vopnasölu til Tyrklands, eins aðildarríkja Atlantshafsbamdalagsins, en af 29 ríkjum Atlantshafsbandalagsins eru 22 í ESB.