Trump beitir Tyrki viðurlögum

Trump kveðst hafa verið skýr í fyrirmælum sínum til Erdogans …
Trump kveðst hafa verið skýr í fyrirmælum sínum til Erdogans Tyrklandsforseta. AFP

Bandaríkjaforseti undirbýr nú skipun þess efnis að núverandi og fyrrverandi ráðamenn í Tyrklandi, sem og hverjir þeir sem hafi aðkomu að aðgerðum Tyrkja í norðausturhluta Sýrlands, verði beittir þvingunaraðgerðum.

Þá mun hann hækka tolla á tyrkneskt stál í 50% og hætta með öllu samningaviðræðum um viðskiptasamning við Tyrki upp á 100 milljarða bandaríkjadala.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Donald Trump sendi frá sér í kvöld. Þar segir hann að Tyrkir megi alls ekki stefna þeim árangri sem unnist hafi í stríðinu við Ríki íslams í Sýrlandi í hættu. Þá verði Tyrkir að tryggja öryggi óbreyttra borgara og ekki síst þjóðlegra eða trúarlegra minnihlutahópa.

Þá varar Trump við því að Bandaríkin svífist einskis í efnahagslegum þvingunum sínum gegn þeim sem stuðli að óróleika í Sýrlandi. „Ég er fyllilega undirbúinn í að eyða efnahag Tyrklands í snatri ef leiðtogar Tyrkja halda áfram á þessari braut hættu og eyðileggingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert