Pence og Pompeo til Ankara á morgun

Mike Pence fer til Ankara á morgun. Mun hann funda …
Mike Pence fer til Ankara á morgun. Mun hann funda með Erdogan Tyrklandsforseta. AFP

Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna og Mike Pompeo utanríkisráðherra fara á morgun til Ankara, höfuðborgar Tyrklands, til að þrýsta á tyrknesk stjórnvöld að stöðva árásir Tyrkja á yfirráðasvæði Kúrda í norðanverður Sýrlandi. 

Þetta sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti við blaðamenn í dag, en Pence tilkynnti í gær að hann hygðist fara til Tyrklands, án þess þó að greina frá því hvenær sú ferð yrði. 

„Þeir fara á morgun. Við erum að biðja um vopnahlé… Við setjum sterkustu refsiaðgerðir sem þú getur ímyndað þér,“ sagði forsetinn við blaðamenn. 

Mun Pence meðal annars funda með Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta. 

Tyrkir hófu lofthernað og sprengjuárásir á yfirráðasvæði Kúrda í síðustu viku. Árásirnar höfðu verið yfirvofandi frá því að Trump tilkynnti, í kjölfar símtals við Erdogan, að hann hefði fyrirskipað að bandarískir hermenn yrðu fluttir frá landamærum Tyrklands og Sýrlands. 

Hersveitir Kúrda hafa verið mikilvægir bandamenn Bandaríkjahers í baráttunni við Ríki íslam. Ákvörðun Trump vakti gríðarlega hörð viðbrögð á Bandaríkjaþingi, en margir töldu ákvörðun Trump vera svik við hersveitir Kúrda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert