Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta símleiðis í gær og krafðist þess að Tyrkir létu af hernaði sínum í norðausturhluta Sýrlands án tafar og semdu um vopnahlé.
Trump greindi frá því í gær að hann undirbúi nú skipun þess efnis að núverandi og fyrrverandi ráðamenn í Tyrklandi, sem og hverjir þeir sem hafi aðkomu að aðgerðum Tyrkja í norðausturhluta Sýrlands, verði beittir þvingunaraðgerðum.
Auk þess mun Bandaríkjastjórn hækka tolla á tyrkneskt stál í 50% og hætta með öllu samningaviðræðum um viðskiptasamning við Tyrki upp á 100 milljarða Bandaríkjadala.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, greindi frá símtali Trumps og Erdogan. Sjálfur segist Pence ætla að ferðast til átakasvæðisins „eins fljótt og auðið er“.
Skipun Trumps kemur í kjölfar mikillar gagnrýni á ákvörðun hans að draga bandaríska hermenn til baka frá norðausturhluta Sýrlands, sem varð til þess að Tyrkir hófu árásir á Kúrda á svæðinu.
Erodgan fullyrðir í Wall Street Journal í dag að liðsmönnum Ríkis íslams verði ekki gert kleift að sleppa úr haldi í norðurhluta Sýrlands. Leiðtogar um heim allan, meðal annars á Íslandi, segja raunverulega hættu á að samtökunum vaxi aftur ásmegin í kjölfar innrásar Tyrkja á landsvæði Kúrda.
Ráðamenn í Ankara segja markmið þeirra að koma á öryggissvæði sem verði undir stjórn arabískra bandamanna þeirra í Sýrlandi hvar hægt verði að koma 3,6 milljónum sýrlenskra flóttamanna fyrir. Kúrdar segja markmiðið að hrekja Kúrda af svæðinu.