Trump krafði Erdogan um vopnahlé

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi ástandið í norðausturhluta Sýrlands við Recep …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi ástandið í norðausturhluta Sýrlands við Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta í síma í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta símleiðis í gær og krafðist þess að Tyrkir létu af hernaði sínum í norðausturhluta Sýrlands án tafar og semdu um vopnahlé. 

Trump greindi frá því í gær að hann undirbúi nú skip­un þess efn­is að nú­ver­andi og fyrr­ver­andi ráðamenn í Tyrklandi, sem og hverj­ir þeir sem hafi aðkomu að aðgerðum Tyrkja í norðaust­ur­hluta Sýr­lands, verði beitt­ir þving­un­araðgerðum.

Auk þess mun Bandaríkjastjórn hækka tolla á tyrk­neskt stál í 50% og hætta með öllu samn­ingaviðræðum um viðskipta­samn­ing við Tyrki upp á 100 millj­arða Banda­ríkja­dala.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, greindi frá símtali Trumps og Erdogan. Sjálfur segist Pence ætla að ferðast til átakasvæðisins „eins fljótt og auðið er“.

Skipun Trumps kemur í kjölfar mikillar gagnrýni á ákvörðun hans að draga bandaríska hermenn til baka frá norðausturhluta Sýrlands, sem varð til þess að Tyrkir hófu árásir á Kúrda á svæðinu.

Erodgan fullyrðir í Wall Street Journal í dag að liðsmönnum Ríkis íslams verði ekki gert kleift að sleppa úr haldi í norðurhluta Sýrlands. Leiðtogar um heim allan, meðal annars á Íslandi, segja raun­veru­lega hættu á að sam­tök­unum vaxi aft­ur ásmeg­in í kjölfar innrásar Tyrkja á landsvæði Kúrda.

Ráðamenn í An­kara segja mark­mið þeirra að koma á ör­ygg­is­svæði sem verði und­ir stjórn ar­ab­ískra banda­manna þeirra í Sýr­landi hvar hægt verði að koma 3,6 millj­ón­um sýr­lenskra flótta­manna fyr­ir. Kúr­d­ar segja mark­miðið að hrekja Kúrda af svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert