Dauðsföllum barna fækkað um tæplega helming

Bólusetningar hafa verið þýðingarmiklar í að fækka dauðsföllum ungra barna.
Bólusetningar hafa verið þýðingarmiklar í að fækka dauðsföllum ungra barna. AFP

Yfir 15 þúsund börn undir fimm ára aldri láta lífið á degi hverjum í þróunarríkjum. Mikill munur er á dánartíðni ungra barna eftir ríkjum. 

Í nýrri skýrslu um barnadauða sem gefin var út í dag, kemur fram að á 17 ára tímabili, frá 2000 til 2017, hafi 123 milljónir nýbura, ungabarna og smábarna látist í 99 lágtekjuríkjum. Yfir 90% dauðsfalla á meðal barna undir 5 ára aldri voru í þessum 99 ríkjum. 

Áætlað er að í lok ársins 2020 munu 130 milljónir barna undir 5 ára aldri hafa látist frá aldarmótum. 

Algengasta dánarorsök er mismunandi eftir aldri. Ótímabær fæðing er algengasta dánarorsök ungabarna undir eins ár aldri. Algengustu dánarorsakir barna tveggja til fjögurra ára eru malaría, niðurgangspestir og  bakteríusýkingar í öndunarfærum á borð við lungnabólgu. 

Lífslíkur barna eru gríðarlega mismunandi eftir svæðum. Til dæmis létust 4 börn af hverjum þúsund árið 2017 í Santa Clara á Kúbu, á meðan 195 börn af hverjum þúsund í Garki, Nígeríu, náðu ekki 5 ára aldri það sama ár. 

„Það er eins ámælisvert og það er sorglegt að um 15 þúsund börn undir fimm ára aldri skuli deyja á degi hverjum,“ sagði Simon Hay, einn höfunda skýrslunnar. 

Á heimsvísu hefur dánartíðni barna undir fimm ára aldri lækkað um tæplega helming frá aldarmótum. Árið 2000 létust um 10 milljónir barna undir fimm ára aldri, en árið 2017 létust um 5.4 milljónir barna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert