„Hvílíkt klúður“

Sýrlenskar fjölskyldur flýja frá átakasvæði nálægt bænum Ras al-Ain við …
Sýrlenskar fjölskyldur flýja frá átakasvæði nálægt bænum Ras al-Ain við landamærin að Tyrklandi. Hörð átök hafa geisað þar milli hersveita Kúrda og Tyrklandshers og sýrlenskra bandamanna hans. AFP

The Wall Street Journal gagnrýnir Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að flytja bandaríska hermenn frá norðanverðu Sýrlandi. Í forystugrein blaðsins er forsetinn sagður aðhyllast „einfeldnislega einangrunarstefnu“ og gera sig að athlægi. 

„Hvílíkt klúður. Oft líða mánuðir eða ár þar til skaðlegar afleiðingar afglapa í utanríkismálum skjóta upp kollinum en skaðinn af þeirri ákvörðun Donalds Trumps forseta að flytja bandaríska hermenn frá norðanverðu Sýrlandi kemur nú fram nánast í rauntíma,“ segir í The Wall Street Journal um átökin í landinu.

Blaðið segir að viðvaranir þeirra, sem gagnrýndu ákvörðun Trumps, hafi nú þegar orðið að veruleika. Hún hafi m.a. orðið til þess að tyrkneski herinn hafi ráðist inn í norðurhluta Sýrlands og Kúrdar, sem voru bandamenn Bandaríkjahers í baráttunni gegn samtökunum Ríki íslams, hafi gripið til þess ráðs að semja við einræðisstjórnina í Sýrlandi til að verjast innrásinni. Ennfremur sé hætta á að liðsmenn Ríkis íslams sleppi úr fangelsum Kúrda og hefji að nýju baráttu sína fyrir stofnun íslamsks ríkis.

„Oft líða mánuðir eða ár þar til skaðlegar afleiðingar afglapa …
„Oft líða mánuðir eða ár þar til skaðlegar afleiðingar afglapa í utanríkismálum skjóta upp kollinum en skaðinn af þeirri ákvörðun Donalds Trumps forseta að flytja bandaríska hermenn frá norðanverðu Sýrlandi kemur nú fram nánast í rauntíma,“ segir í The Wall Street Journal um átökin í landinu. AFP

„Enginn treystir Trump“

Margir fréttaskýrendur hafa tekið í sama streng frá því að Trump tilkynnti ákvörðun sína um brottflutning hermannanna eftir símasamtal 6. þessa mánaðar við Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands.

Robert Malley, formaður hugveitunnar International Crisis Group, segir að ákvörðun Trumps hafi verið fyrirsjáanleg í ljósi þess að forsetinn hafi tilkynnt í desember að hann hygðist kalla bandaríska herliðið í Sýrlandi heim en síðan dregið í land með það vegna andstöðu embættismanna í stjórn hans og meðal repúblikana á þinginu. „Þetta er hins vegar gert á þann hátt að ákvörðunin hefur allar verstu afleiðingarnar sem hægt var að hugsa sér,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Malley.

Elizabeth Dent, ráðgjafi bandaríska utanríkisráðuneytisins í baráttunni gegn Ríki íslams, sagði að ákvörðun Trumps gæti orðið til þess að samtökin risu úr öskustónni og stjórn Bandaríkjanna hefði þurft að undirbúa brottflutning herliðsins betur til að tryggja að liðsmenn samtakanna slyppu ekki úr fangelsum Kúrda.

Joshua Landis, sérfræðingur í málefnum Sýrlands við Oklahoma-háskóla, sagði að afskipti bandarískra stjórnvalda af stríðinu í Sýrlandi hefðu alltaf verið ruglingsleg og orðið til þess að Kúrdar hefðu gert sér of miklar vonir um ávinning af samstarfinu við Bandaríkin. „Bandaríkjamenn ætluðu aldrei að vera í Sýrlandi til langframa og hjálpa Kúrdum að stofna hálfsjálfstætt ríki. Það voru draumórar,“ hefur AFP eftir Landis.

Tyrkneskir hermenn og bandamenn þeirra safnast saman í grennd við …
Tyrkneskir hermenn og bandamenn þeirra safnast saman í grennd við sýrlenska bæinn Manbij, nálægt landamærunum að Tyrklandi. AFP

Fréttina í heild sinni má finna í Morgunblaðinu í dag, 16. október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert