Forseti Katalóníu fordæmir ofbeldi mótmælenda

Fjöl­menn mót­mæli hafa verið út í Barcelona síðustu þrjú kvöld …
Fjöl­menn mót­mæli hafa verið út í Barcelona síðustu þrjú kvöld eft­ir að Hæstirétt­ur Spán­ar dæmdi níu leiðtoga sjálf­stæðissinna í Katalón­íu til ára­langra fang­elsis­vista. AFP

Tugþúsundir söfnuðust saman í miðborg Barcelona í gærkvöld og nótt, þriðja kvöldið í röð, og mótmæltu fang­els­is­dóm­um leiðtoga aðskilnaðarsinna sem vilja sjálf­stæði Katalón­íu­héraðs.

Quim Torra, forseti Katalóníu, fordæmir þá sem beita ofbeldi og stofna til átaka í mótmælunum. „Við fordæmum ofbeldi […]. Þessu verður að linna strax,“ sagði Torra í sjónvarpsávarpi, en hann tekur þó undir kröfur mótmælenda um að hinir dæmdu verði látnir lausir en segir það ekki réttlæta ofbeldi og skemmdarverk.  

Hæstirétt­ur Spán­ar dæmdi á mánu­dag níu leiðtoga sjálf­stæðissinna í Katalón­íu til ára­langr­ar fang­els­is­vist­ar. Þyngsti dóm­ur­inn hljóðar upp á 13 ár en sá sem styst þarf að sitja inni verður þar þó í níu ár.

Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda í nótt. Kveikt var í bílum og ýmsu lauslegu kastað að lögreglu. „Mótmæli eiga að vera friðsamleg,“ sagði Torra. Þá sagði hann það ekki boðlegt að leyfa hópi fólk að lauma sér í raðir mótmælenda og egna til ófriðar. „Það spillir ímynd hreyfingar milljóna Katalóna.“

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert