Trump við Erdogan: Ekki vera bjáni!

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti á leiðtogafundi …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti á leiðtogafundi NATO í fyrrasumar. Óhefðbundið bréf Trumps til Erdogans þar sem hann segir honum að hætta að vera bjáni hefur vakið talsverða athygli, skiljanlega. AFP

„Ekki verða harðjaxl. Ekki vera bjáni!“ Þannig hljóða lokaorð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta til Receps Tayyips Erdogans, Tyrklandsforseta, í bréfi sem sá fyrrnefndi sendi, daginn sem Tyrkir hófu innrás sína í Sýrland fyrir rúmri viku. 

Í bréfinu heitir Trump því að eyðileggja tyrkneskan efnahag ef hernaðaraðgerðir forsetans gegn Kúrdum haldi áfram. Það er einna helst orðalagið sem vekur athygli og fjöldi upphrópunarmerkja í bréfinu, sem á fátt skylt við hefðbundin samskipti þjóðhöfðingja. Fréttakona Fox-sjónvarpsstöðvarinnar birti afrit af bréfinu á Twitter í gær. 

„Gerum góðan samning! Þú vilt ekki bera ábyrgð á slátrun mörg þúsund manns, og ég vil ekki bera ábyrgð á að eyðileggja tyrkneskan efnahag — og ég mun gera það,“ hótar Trump, líkt og hann gerði í færslu á Twitter rétt áður en hann sendi bréfið. 

Trump segist hafa unnið hart að því leysa sum vandamál Erdogans. „Ekki bregðast heimsbyggðinni,“ skrifar Trump og segir Erdogan í kjörstöðu til að semja við Mazloum hershöfðingja og einn helsta leiðtoga hersveita Kúrda í Norður-Sýrlandi. Trump segir Mazloum tilbúinn til að gera málamiðlanir sem hann hefði aldrei samþykkt áður. Því til staðfestingar lætur Trump fylgja með afrit af bréfi hershöfðingjans til hans. 

Að lokum segir Trump að Erdogans verði minnst fallega í mannkynssögunni ef hann bregðist rétt við og sýni mannúð. Annars verði hans minnst sem djöfuls að eilífu. „Ekki vera harðjaxl. Ekki vera bjáni!“ skrifar Trump svo að lokum.

Lokaorð bréfsins eru svo einföld: „Ég hringi í þig seinna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert