Hörð átök brutust út milli mexíkóskra öryggissveita og glæpamanna Sinaloa-eiturlyfjagengisins í borginni Culiacán í gær, eftir að leiðtogi gengisins var handtekinn.
Öryggissveitirnar voru við venjubundið eftirlit þegar Ovidio Guzman, einn þriggja sona eiturlyfjaforingjans Joaquin Guzman, sem oftast er kallaður „El Chapo“, varð óvænt á vegi þeirra. Talið er að hann hafi tekið við stjórnartaumum í genginu eftir að „Sá stutti“ var dæmdur til lífstíðarfangelsisvistar fyrir dómstólum í New York í Bandaríkjunum í júlí. Hann var meðal annars sakfelldur fyrir eiturlyfjasmygl og peningaþvætti.
Ovidio Guzman, sem er á þrítugsaldri og eftirlýstur í Bandaríkjunum vegna eiturlyfjasmygls, var handtekinn um leið og lögreglan áttaði sig á um hvern ræddi. Við það brutust út hörð átök milli öryggissveitanna og glæpagengisins.
Skotbardagi braust út við fangageymsluna þar sem Guzman var haldið. Öryggissveitirnar nutu aðstoðar hersins í átökunum en svo fór að lokum að Guzman var sleppt úr haldi, til að tryggja öryggi almennings í borginni, líkt og Alfonso Durazo, ráðherra almannaöryggis, orðaði það, en glæpagengið hafði gert árásir á mörgum stöðum í borginni.
Engum varð meint af vegna átakanna en margir borgarar urðu skelkaðir.