„Ofmetnasti hershöfðinginn“ skaut á Trump

James Mattis, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, skaut föstum skotum að Donald …
James Mattis, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, skaut föstum skotum að Donald Trump Bandaríkjaforseta sem sagði Mattis ofmetnasta hershöfðingja sögunnar á fundi í fyrradag. AFP

James Mattis, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir það mikinn heiður að hafa verið útnefndur „ofmetnasti hershöfðingi sögunnar,“ af Donald Trump Bandaríkjaforseta. Mattis skaut fast á forsetann á góðgerðarsamkomu í New York í gærkvöldi. 

Trump lét ummælin falla á fundi með fulltrúum demó­krata og repúblikana í full­trúa- og öld­unga­deild Banda­ríkjaþings og yf­ir­mönn­um í Banda­ríkja­hers í gær þar sem ákvörðun forsetans að draga herlið Banda­ríkj­anna frá Sýr­landi var til umræðu. 

Þegar Char­les Schumer, leiðtogi demó­krata í öld­unga­deild­inni, hóf að lesa yfirlýsingu Mattis um mik­il­vægi þess að halda herliði Banda­ríkj­anna í Sýr­landi til að koma í veg fyr­ir upp­gang ISIS greip Trump fram í fyrir honum og þaggaði niður í hon­um með því að segja að Matt­is væri „of­metn­asti hers­höfðingi sög­unn­ar.“

„Ég er ekki bara ofmetinn hershöfðingi. Ég er ofmetnasti hershöfðingi allra tíma,“ sagði Mattis þegar hann ávarpaði samkomuna og uppskar mikinn hlátur fyrir. Mattis sagði það líka mikinn heiður að vera sagður ofmetinn af forsetanum þar sem hann hefur líka sett stórleikkonuna Meryl Streep í þann flokk. 

„En það verður að viðurkennast að við Meryl höfum hrósað sigri á ýmsum sviðum,“ sagði Mattis. 

Mattis sagði ummæli forsetans ekki trufla sig og grínaðist hann með tímann sem liðinn er frá því að hann lét af embætti varnarmálaráðherra, eða tæpt ár. 

„Endurhæfingarferlið gengur vel, ráðgjafinn segir að ég muni útskrifast bráðum. Ár, samkvæmt Hvíta húsinu, er 9.000 klukkustundir af stjórnun (e. Executive time) eða 1.800 golfholur,“ sagði Mattis léttur.

Brot úr ræðu Mattis má sjá hér: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert