Segir árásir hefjast á mínútunni

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir að tyrkneski herinn fari aftur fram af fullum þunga gegn Kúrdum á svæði Kúrdistan í norðurhluta Sýrlands við landamærin að Tyrklandi, hafi Kúrar ekki dregið herlið sitt til baka fyrir þriðjudaginn.

Í gær tilkynnti Erdogan að Tyrkir myndu láta af árásum á svæðinu með þessu skilyrði næstu 120 klukkustundirnar, eða fram á þriðjudagskvöld. „Gangi það eftir munum við halda okkar striki,“ sagði forsetinn í dag, en mark­mið Tyrkja er að ná yf­ir­ráðum á þessu umrædda svæði sem nær um 30 kíló­metra inn í Sýr­land frá landa­mær­un­um. „Ef ekki, þá munum við hefja aftur aðgerðir á mínútunnim um leið og þessir 120 klukkutímar eru liðnir.“

Til­gang­ur­inn er ann­ars veg­ar að halda sveit­um Kúrda frá landa­mær­un­um að Tyrklandi og búa þannig til það sem hef­ur verið kallað „ör­ygg­is­svæði“ og hins veg­ar að þangað verði send­ur hluti þeirra 3,6 millj­óna flótta­manna frá Sýr­landi sem haf­ast nú við í Tyrklandi.

Erdogan sagði að hersveitir Tyrkja myndu vera áfram á svæðinu þrát fyrir vopnahléið, því öryggi krefðist þess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert