Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur sent leiðtogaráði Evrópusambandsins bréf þar sem óskað er eftir því að leiðtogar Evrópusambandsríkja fallist á að fresta útgöngu Breta úr sambandinu. Bréfið er hins vegar ekki undirritað af Boris. BBC greinir frá þessu, en Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB staðfestir á Twitter að bréfið hafi borist og segist munu hefja viðræður við leiðtoga aðildarríkja um viðbrögð við bréfinu.
The extension request has just arrived. I will now start consulting EU leaders on how to react. #Brexit
— Donald Tusk (@eucopresident) October 19, 2019
Bréfið sendir Johnson nauðbeygður en breska þingið samþykkti í síðasta mánuði lög þess efnis að forsætisráðherranum bæri að óska eftir frekari frestun á útgöngunni ef ekki hefði verið samið við Evrópusambandið fyrir 19. október, sem er í dag. Johnson hafði áður sagt að hann hygðist ekki óska eftir slíkum fresti.
Í frétt BBC er haft eftir heimildarmönnum úr Downing-stræti að bréfið hafi verið sent óundirritað og því hafi fylgt annað undirritað bréf þar sem Johnson tekur fram að hann telji það mistök að samþykkja frekari frestun. Það bréf hafi Boris undirritað.