Saka hvor annan um brot á vopnahléi

Þrátt fyrir vopnahléið hafa átök haldið áfram, sérstaklega í nágrenni …
Þrátt fyrir vopnahléið hafa átök haldið áfram, sérstaklega í nágrenni landamærabæjarins Ras-al-Ain. AFP

Ásakanir um brot á vopnahléi ganga á báða bóga á milli hers Tyrkja og sameinaðra afla Kúrda og stjórnarhers al-Assad Sýrlandsforseta.

Samið var um fimm daga vopnahlé fyrir milligöngu Bandaríkjanna á fimmtudag, en með því vilja Tyrkir gefa Kúrdum tækifæri á að hörfa frá örugga svæðinu í norðausturhluta Sýrlands.

Innrás Tyrkja hófst fyrir ellefu dögum, skömmu eftir að Bandaríkin drógu herlið sitt frá svæðinu og skildu Kúrda eftir eina, sína helstu bandamenn í stríðinu gegn ríki íslams í Sýrlandi. Hefur Bandaríkjaforseti hlotið mikla gagnrýni alls staðar að vegna ákvörðunarinnar.

Þrátt fyrir vopnahléið hafa átök haldið áfram, sérstaklega í nágrenni landamærabæjarins Ras-al-Ain.

Varnarmálaráðuneyti Tyrklands hefur sakað Kúrda um 14 árásir á síðustu 36 sólarhringum, aðallega innan fyrrnefnds landamærabæjar, en segir Tyrki hafa virt samkomulagið að fullu.

Því eru Kúrdar og Sýrlandsher ósammála og segja Tyrki hafa brotið gegn vopnahléinu. Þá hafi þeim mistekist við að greiða leið almennra borgara og særðra frá Ras-al-Ain. Hefur Sýrlandsher beðið Mike Pence, sem gegnir hlutverki sáttasemjara í átökunum, að biðja Tyrki vinsamlegast að tryggja örugga útgönguleið úr bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert