Frá New York til Sydney án millilendingar

Áhöfn Qantas fagnar vel heppnuðu flugi við komuna til Sydney.
Áhöfn Qantas fagnar vel heppnuðu flugi við komuna til Sydney. AFP

Ástralska flugfélagið Qantas hefur lokið fyrsta reynslufluginu á lengsta farþegaflugi heims án millilendingar, en prufunni var ætlað að sjá hvaða áhrif svo langt flug hefði á flugmenn, flugþjóna og farþega.

Ferðin var farin með flugvél af gerðinni Boeing 787-9. Um borð voru 49 manns og tók flugið frá New York í Bandaríkjunum til Sydney í Ástralíu 19 klukkustundir og 16 mínútur.

Í næsta mánuði stendur til að flugfélagið prófi beint flug frá London í Bretlandi til Sydney og er áætlað að ákvörðun verði tekin um hvort þessar flugleiðir verði teknar upp hjá félaginu fyrir lok þessa árs. Áætlunarflug á milli New York og Sydney annars vegar og London og Sydney hins vegar myndi þá hefjast árið 2022 eða 2023.

Áhöfn og farþegar flugsins héldu líkamanum góðum með æfingum og …
Áhöfn og farþegar flugsins héldu líkamanum góðum með æfingum og teygjum. AFP

Engin farþegaflugvél hefur enn getu til þess að fljúga vegalengdir sem þessar með hámarksfarþegafjölda og farm án þess að þurfa að millilenda til þess að taka eldsneyti. Til þess að komast leiðina á enda var flugvél Qantas stútfyllt af eldsneyti, auk þess sem farangursmagn var takmarkað og engum farmi var flogið á milli.

Vel fylgst með flugmönnum og farþegum á leiðinni

Farþegar stilltu úr sín á ástralskan tíma þegar þeir stigu um borð í flugvélina í New York og var haldið vakandi þar til kvölda tók í Sydney til þess að draga úr áhrifum flugþreytu. Eftir sex klukkustunda flug fengu þeir kolvetnaríka máltíð og ljósin voru slökkt til þess að hvetja þá til að sofa. 

Meðan á fluginu stóð var vel fylgst með flugmönnunum, svo sem heilabylgjustarfsemi þeirra, melatónínmagni og árvekni, auk þess sem fylgst var með því hvaða áhrif ferðalag yfir svo mörg tímabelti í einu hefði á farþega.

Samkeppni á markaði lengri flugferða fer harðnandi, en á síðasta ári hóf Singapore Airlines áætlunarflug á milli Singapore og New York. Flugferðin tekur um 18 klukkustundir og 25 mínútur og er enn sem komið er lengsta áætlunarflug heims. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert