Breskir embættismenn hafa stigið fyrstu skref í vegferð sem miðar að því að endurheimta börn sem eru föst í Sýrlandi og koma þeim til Bretlands.
Börnin sem breskir embættismenn leita eru öll með breskan ríkisborgararétt en eiga breska foreldra sem hafa verið viðriðnir vígasamtökin Ríki íslams. Hefur foreldrum og börnum hingað til ekki verið hleypt aftur til Bretlands vegna tengsla þeirra við Ríki íslams.
Hafa embættismennirnir nú þegar komist í samband við stofnanir í Sýrlandi og beðið starfsmenn þeirra um að bera kennsl á ólögráða börn sem ætlunin er að færa á öruggan hátt til Bretlands.
Meðal fyrstu barnanna sem borin hafa verið kennsl á eru þrír munaðarleysingjar sem talið er að hafi ferðast með foreldrum sínum til Sýrlands frá London fyrir fimm árum. Þeir eru nú staddir í sýrlensku borginni Raqqa sem er undir stjórn kúrdískra hersveita.
Ætlunin er að flytja börnin til Íraks og þaðan til Bretlands. Áætlunin hefur verið metin örugg af kúrdískum embættismönnum, sérstaklega þar sem nú ríkir fimm daga vopnahlé sem lýkur á þriðjudag.
Hersveitir Tyrkja hófu árásir á landamærum Tyrklands og Sýrlands 9. október síðastliðinn eftir að Bandaríkjamenn tilkynntu að þeir myndu hörfa frá svæðinu.
Ákvörðun breskra yfirvalda um að koma börnunum heim kemur skömmu áður en réttarhöld hefjast vegna áfrýjunar Shamimu Begum. Hún hefur áfrýjað dómi sem varð til þess að hún var svipt breskum ríkisborgararétti sínum. Begum ferðaðist frá heimili sínu í London til Sýrlands árið 2015, þá fimmtán ára gömul, til þess að ganga til liðs við ISIS.
Lögfræðingar Begum segja að ákvörðunin hafi verið ólögmæt. Fjögurra daga réttarhöld munu eiga sér stað í vikunni í húsnæði sérstakrar áfrýjunarnefndar útlendingastofnunar, sérfræðidómstóls sem réttar vegna ákvarðana um að svipta einstaklinga ríkisborgararétti sínum af þjóðaröryggisástæðum.
Síðastliðinn föstudag kom í ljós að Belgía og fleiri evrópsk ríki voru að vinna að því að senda ríkisborgara sem hefðu tengsl við Ríki íslams í norðausturhluta Sýrlands úr landi. Einnig hafa Frakkland og Þýskaland verið bendluð við slíkt.