Ný gögn benda til þess að yfirmenn hjá flugvélaframleiðandanum Boeing hafi sett pressu á verkfræðinga og flugmenn hjá fyrirtækinu þegar kom að því að samþykkja öryggisráðstafanir. Að þessu hafa rannsakendur hjá samgöngunefnd Bandaríkjaþings komist en þeir hafa rannsakað hönnunar- og öryggisferli Boeing 737 MAX-vélarinnar.
Til stendur að Dennis Muilenberg, forstjóri Boeing, komi fyrir þingnefnd til að svara fyrir mögulegar blekkingar, að því er Wall Street Journal hefur eftir Richard Blumenthal, öldungadeildarþingmanni demókrata.
Í könnun sem fyrirtækið lét gera fyrir þremur árum kom fram að einn af hverjum þremur starfsmönnum fyrirtækisins taldi sig undir pressu frá stjórnendum vegna öryggisskoðana opinberra starfsmanna. Vinnuálag var talið helsta ástæða þess.
Sér í lagi gilti þetta um starfsmenn sem sátu beggja vegna borðsins: hönnuðu ákveðin kerfi fyrir flugvélaframleiðandann og sáu svo um að votta þau fyrir hönd Flugmálastofnunar Bandaríkjanna, en slíkt vinnulag hefur tíðkast áratugum saman.
Í skýrslu sem Boeing vann í kjölfar skoðanakönnunar er bent á þann augljósa hagsmunaárekstur sem geti komið upp þegar starfsmenn eru beðnir um að hanna búnað og síðan samþykkja hann sjálfir.
Enginn yfirmaður hjá Boeing hefur látið af störfum vegna krísunnar sem komin er upp vegna MAX-vélanna.