Ástralskir fjölmiðlar mótmæla þöggun

The Australian er eitt þeirra dagblaða sem birti yfirstrikaðan texta …
The Australian er eitt þeirra dagblaða sem birti yfirstrikaðan texta á forsíðu sinni í dag. AFP

Yfirstrikaður texti prýddi forsíður stærstu dagblaða Ástralíu í dag. Með því mótmæla 19 fjölmiðlafyrirtæki og blaðamannasamtök því sem þau telja óviðeigandi afskipti stjórnvalda af starfsemi fjölmiðla, en í sumar gerði lögregla húsleit á skrifstofum sjónvarpsstöðvarinnar ABC sem er í ríkiseigu og er yfirstrikunin táknræn um þær hömlur sem fyrirtækin og samtökin telja að áströlskum fjölmiðlum hafi verið settar með því.

Húsleitin hjá ABC var gerð vegna umfjöllunar stöðvarinnar um meinta stríðsglæpi ástralskrar sérsveitar í Afganistan.

Einnig var gerð húsleit á heimili Anniku Smethurst, blaðamanns hjá fjölmiðlasamsteypunni News Corp, en hún hafði greint frá því að ástralska ríkisstjórnin íhugaði að njósna um ástralska ríkisborgara og  væru skiptar skoðanir innan stjórnarinnar um þær fyrirætlanir. Fjölmiðlafyrirtækin telja að með því hafi verið ráðist að frelsi fjölmiðla, en lögregla útilokar ekki að þrír blaðamenn ABC verði ákærðir í kjölfar húsleitarinnar.

Fátt er að frétta á forsíðum stærstu dagblaðanna í Ástralíu …
Fátt er að frétta á forsíðum stærstu dagblaðanna í Ástralíu í dag. AFP

Meðal þeirra dagblaða sem voru með yfirstrikaðar forsíður í dag voru The Australian, The Sydney Morning Herald og The Australian Financial Review og eru mótmælin haldin undir slagorðinu Right to Know.

Uppljóstrarar fái aukna vernd

Krafa fjölmiðlanna er að þeir uppljóstrarar sem veiti fjölmiðlum upplýsingar njóti aukinnar verndar, að auðveldara verði fyrir fjölmiðla að nálgast upplýsingar úr stjórnkerfinu og að heimildir hins opinbera til að skilgreina gögn sem leyniskjöl verði endurskoðaðar. Þá er krafist lagasetningar um málfrelsi, en slík lög eru ekki í gildi í Ástralíu. 

Scott Morrison, forsætisráðherra landsins, segir að stjórnvöld trúi á og styðji frelsi fjölmiðla, en sagði enn fremur að blaða- og fréttamenn væru ekki hafnir yfir lög. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert